Ársskýrsla Flóruvina fyrir árið 2021

Formaður Flóruvina á árinu var Gróa Valgerður Ingimundardóttir en að auki sátu í nefndinni Hörður Kristinsson, Pawel Wasowicz, Snorri Sigurðsson og Starri Heiðmarsson.

Á árinu dafnaði Facebook hópur Flóruvina og er fjöldi félaga í hópnum kominn vel yfir 3000. Hópurinn er virkur allt árið um kring og var sérstaklega skemmtilegt tímabil þar sem fólk lagði upp myndir af visnuðum plöntum yfir vetrarmánuðina og að sjálfsögðu voru þær tegundagreindar. Stjórn Flóruvina stýrir Facebook hópnum en fjöldi fólks heldur virkninni upp, deilir myndum og greinir tegundir af miklum móð. Flóruvinir lögðu m.a.s. af mörkum upplýsingar þónokkra fundarstaði fyrir stormþul. Við höfum þó lítið unnið með Facebook síðu Flóruvina á árinu en fylgjendur þar eru tæp 500 talsins.

Snorri og Gróa sátu sameiginlegan fjarfund grasafræðifélaga Norðurlandanna þann 14. febrúar 2021. Þar greindu fulltrúar félagann frá starfinu á starfssvæðinu: Degi hinna villtu blóma, fræsöfnun, endurheimt votlendis, kortlagningu tegunda, plöntugreiningarnámskeiðum og baráttunni gegn ágengum tegundum. Það var mjög áhugavert að kynnast mismunandi áherslum landanna, sérstaklega hvað snerti ágengar tegundir en þar virðist umræðan á Íslandi eiga nokkuð langt í land í samanburði við nágranna okkar.

Dagur hinna villtu blóma er orðinn fastur liður á hverju sumri og þó hann eigi að falla á þriðja sunnudag júnímánaðar þá er tíðarfar og veðurskilyrði annars eðlis en á hinum Norðurlöndunum. Því var það að plöntuskoðunarferðir voru haldnar undir nafni dagsins nokkuð fram eftir sumri. Nokkrir aðilar hafa það sem fastan punkt að standa fyrir göngu en það er Grasagarður Reykjavíkur, Náttúrustofa Austurlands, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Ein ferð var skipulögð sem einkaframtak í gegnum Flóruvini en fyrir henni stóðu Kristín Stefánsdóttir og Þórunn Kristjánsdóttir í Flóa.

Pawel stóð fyrir Sumarátaki Flóruvina en það gerði fólki kleift að skrá þær tegundir sem það fann á ferðum sínum um landið og koma þeim beint í gagnagrunn í gegnum internetið. Ætlunin var að leggja okkar að mörkum við að fækka þeim reitum á landinu sem eru vanskráðir. Áður fyrr voru notuð skráningaspjöld í sama tilgangi. Verkefnið var vel kynnt og mættu Pawel og Starri í viðtal á morgunútvarpi Rásar 2 í júníbyrjun. Því miður varð þó enginn árangur af átakinu og það má spyrja sig hvort nútíminn kalli á app í símann svo árangur geti náðst eða hvort svona átak henti betur fyrir útvaldar tegundir.

Að lokum má nefna að Snorri mætti fyrir hönd Flóruvina í viðtal í þáttinn Sumarmál á Rás 1 og hélt að auki fræðsluerindi fyrir Oddfellow í Garðabæ.

Fyrir hönd faghóps Flóruvina,
Gróa Valgerður Ingimundardóttir