Gengið á Þríhnúkagíg

Fyrsta fræðsluferð HÍN í ár verður miðvikudaginn 6. júní og er stefnt á Þríhnúkagíg sem er norður af Grindaskörðum í Bláfjallafólkvangi. Leiðsögumaður verður valinkunnur jarðfræðingur sem þekkir svæðið mjög vel, dr. Kristján Sæmundsson.

Þríhnúkagígur er gjall- og klepragígur sem er talinn hafa myndast í gosi fyrir um 3000 árum. Í lok gossins tæmdist gosrásin, kvikan seig niður og mikið gímald myndaðist undir gígnum, um 120 m á hæð og nær 0,3 ha að gólfflatarmáli. Gígurinn er lítt kunnur en fyrst var sigið í hann 1974. Fram hafa komið hugmyndir um að grafa göng inn í gíginn og hafa þar útsýnispall um hellinn miðjan. Fáir hellar eru til á jörðinni af þeirri gerð og stærð sem Þríhnúkagígur tilheyrir. Umhverfi Þríhnúka er mjög áhugavert, móbergshnúkar frá ísöld og nútímahraun með gígum og hrauntröðum. Af gígnum er gott útsýni yfirl höfuðborgarsvæðið og Snæfellsnes.

20070528163406928661Gangan hefst kl. 19:00 í Bláfjöllum við mót vegar númer 407 (Bláfjallaleið) og 417 (Bláfjallavegur). Gera má ráð fyrir að það taki innan við eina klst. að ganga hvora leið og komið verði til baka á upphafsreit um kl. 22:00.

Mælst er til þess að fólk komi sér sjálft á upphafsstað göngunnar. Fólk er hvatt til að ræða sín á milli um bílasamflot. Einnig er möguleiki að fá bílfar með skipuleggjendum (senda óskir þar að lútandi á netfangið stjorn@hin.is).

Gangan er ekki erfið og ætti að vera við flestra hæfi og allir eru velkomnir.

Vinsamlega tilkynnið þátttöku í afgreiðslu Hins íslenska náttúrufræðifélags í síma 570 0430, eða með því að senda skeyti á netfangið stjorn@hin.is.