Mánudag 26. nóvember 2007. Dr. Ólafur Ingólfsson„ Jöklafræðingur í Kalahari eyðimörkinni: jarðsaga, fornjöklun, demantar og ljón.“
Greint verður frá rannsóknarleiðangri sem farinn var til Kalahari eyðimerkurinnar í Suður-Afríku og Botswana síðastliðið vor. Markmið leiðangursins var að skoða minjar um mikla ísöld á Gondwana á mörkum Kola- og Permtímabilanna, fyrir um 300 milljón árum. Þá voru stór landsvæði í núverandi Afríku, Indlandi, Ástralíu, Suður Ameríku og Suðurskautslandinu hulin gríðarstórum jökulskildi, af sömu stærðargráðu og jökulhvelið yfir Suðurskautslandinu í dag. Á Kalahari og Karoo svæðunum eru >900 m þykk lög jökulruðnings og jökulsjávarsets sem sett voru í setlægð sem um margt hefur minnt á Rosshafssvæðið við Suðurskautslandið.
Þó athyglin hafi einkum beinst að jökulruðningi undir brennandi sól Kalahari, er jarðfræði Suður Afríku einstaklega áhugaverð og því voru nokkur hliðarspor tekin til að skoða kimberlíta (möttulberg með demöntum), granítinnskot sem tengjast Panafrísku fellingunni, basaltganga sem tengjast því er Gondvana rak sundur, fjöll úr járni frá Forkambríum og fleira. Þá var ekki hjá því komist að hafa auga með ljónum og öðrum rándýrum sem sátu um hjarðir grasbíta í flóðdölum Kalahari og gætu á góðum degi hæglega gelypt eitt stykki jarðfræðing eða svo.