GALAPÁGOSEYJAR – PARADÍS Í HÆTTU?

Fyrsta fræðsluerindi HÍN eftir áramót verður haldið mánudaginn 28. Janúar 2008 kl. 17:15 og fer það fram í stofu 132, Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Dr. Hafdís Hanna Ægisdóttir, plöntuvistfræðingur á Líffræðistofnun Háskólans, ríður á vaðið og er heitið á erindinu hennar „GALÁPAGOSEYJAR – PARADÍS Í HÆTTU?“

Erindi dr. Hafdísar Hönnu Ægisdóttur, plöntuvistfræðings:

Galápagoseyjar með sínum risaskjaldbökum, skrítnu sækembum og framandlegu fuglum eru sveipaðar dulúð og ævintýraljóma í hugum okkar flestra. Þessar virku eldfjallaeyjar eru staðsettar við miðbaug í um 1000 km fjarlægð frá meginlandi S-Ameríku og í kringum þær blandast heitir og kaldir hafstraumar. Samspil þessara þátta hafa skapað kjöraðstæður fyrir þróun hins einstaka lífríkis eyjanna og hafsins í kringum þær. Í því samhengi má minna á að eyjarnar eru einna helst þekktar fyrir að veita Darwin innblástur að hugmyndum sínum um þróun lífvera sem síðar urðu að þróunarkenningunni. Galápagoseyjar hafa verið þjóðgarður frá árinu 1959 og á náttúruminjaskrá UNESCO frá árinu 1978. Þrátt fyrir landfræðilega einangrun og alþjóðlega verndun verður lífríki og náttúra eyjanna nú fyrir síauknu álagi sem gerði það að verkum að UNESCO setti eyjarnar á lista yfir náttúrleg svæði í hættu síðastliðið sumar.

Á útmánuðum síðasta árs fór fyrirlesari í fimm vikna rannsóknarleiðangur til Galápagoseyja. Í erindinu verður sagt frá leiðangrinum í máli og myndum og fjallað um lífríki og sögu eyjanna. Umhverfismál og þær hættur sem steðja að eyjunum verða ræddar og þeirri spurningu varpað fram hvort Galápagoseyjar séu paradís í hættu.