Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 29. nóvember 2010 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er dr. Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur og sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, sem flytur erindi sem hann nefnir „Alaskalúpína og skógarkerfill – ágengar tegundir á Íslandi“.
Ágrip af erindi
„Ágengar framandi tegundir eru meðal þess sem mest ógnar líffræðilegri fjölbreytni á jörðinni. Aðeins eyðing búsvæða er talin hafa meiri áhrif. Í alþjóðasamningum, sem Íslendingar eru aðilar að, er kveðið á um varnir gegn ágengum framandi tegundum og er nú víða um lönd unnið að því að takmarka útbreiðslu þeirra. Ef undan eru skildar aðgerðir gegn útbreiðslu minks hefur fram undir þetta fremur lítið verið gert hér á landi á þessu sviði. Nýlega hafa stjórnvöld þó ákveðið að ráðast í átak til að stemma stigu við útbreiðslu tveggja plöntutegunda, alaskalúpínu og skógarkerfils.
Hingað til lands hafa verið fluttar fjölmargar plöntutegundir, ýmist til skrauts, ræktunar í landbúnaði, landgræðslu eða skógræktar. Flestar hafa þær lítið breiðst út og því haft lítil áhrif á vistkerfi landsins. Alaskalúpína og skógarkerfill eru hins vegar dæmi um innfluttar tegundir sem hafa breiðst mikið út á síðustu árum og hafa þær veruleg áhrif þar sem þær nema land. Í erindinu verður farið yfir helstu hugtök sem notuð eru um framandi og ágengar tegundir. Greint verður frá einkennum alaskalúpínu og skógarkerfils, náttúrlegri útbreiðslu þeirra, útbreiðslu hér á landi og sýnd dæmi um áhrif þeirra í íslenskri náttúru. Að lokum verður fjallað um nýlegar tillögur stjórnvalda sem miða að því að hefta útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils.”
Sigurður H. Magnússon er fæddur 1945. Hann lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D.-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður starfaði á Rannsóknastofnun landbúnaðarins frá 1987 til 1997 en hefur síðan unnið sem sérfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands. Hann hefur einkum fengist við rannsóknir á landnámi og framvindu gróðurs, vistfræði landgræðsluplantna og flokkun lands í vistgerðir.