Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 31. janúar 2011 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er Jón Már Halldórsson, líffræðingur og sérfræðingur hjá Fiskistofu, sem flytur erindi sem hann nefnir „Ussuriland – hin rússneska Amazon!“.
Ágrip af erindi
„Ussuriland, hin rússneska Amazon, eins og landkönnuðurinn Nikolai Przemwalski (1839-1888) kallaði svæðið sunnan Amur-fljóts og austan Ussuri-fljóts. Nafngift svæðisins er nú óðum að hverfa úr landafræðibókum en er þekkt í eldri bókum á sviði náttúrufræði og meðal rússneskra náttúrufræðinga.
Á tímum kalda stríðsins var Ussuriland harðlokað umheiminum vegna nálægðar við hernaðarmannvirki rauða hersins en eftir hrun Sovétríkjanna hefur svæðið ásamt öðrum náttúruperlum þessa víðlenda ríkis opnast umheiminum. Vísindamenn, ferðamenn og því miður veiðiþjófar hafa fengið tækifæri á að komast inn á þessi svæði.
Í Ussurilandi má sjá einstakan samruna fánu og flóru barrskóga Síberíu og laufskóga suður-Asíu og er svæðið tegundaauðugasta svæði Rússlands. Ussuriland er aðeins 0,9% af flatarmáli landsins en 24% spendýrategunda og 61% fuglategunda eiga heimkynni eða dveljast þar í skamman tíma við votlendi, sjávarströndina og í þéttum frumskógum Ussurilands. Á svæðinu er að finna mörg af fágætustu hryggdýrum Asíu t.d. Amur-hlébarða og Ussuri-tígrisdýrið, en Ussuriland er síðasta vígi þessara stærstu núlifandi kattardýra. Auk þess er mikill þéttleiki annarra tegunda sem eru fágætar annars staðar.
Þrátt fyrir einangrun hafa ýmsir náttúrufræðingar og fleiri gert svæðinu góð skil í skrifum sínum. Helst má nefna ferðabækur rússneska landkönnuðarins Vladimirs Arsenievs (1872-1930) auk fjölmargra dýrafræðinga sem hafa rannsakað fánu svæðisins. Hinn frægi japanski kvikmyndagerðarmaður Akiro Kurosawa (1910-1998) gerði merkilega kvikmynd eftir bók Arsenievs um kynni þess síðarnefnda af frumbyggjanum Derzu Usala og mun Kurosawa hafa fengið leyfi sovéskra yfirvalda til að kvikmynda á svæðinu en slíkt var flestum erlendum kvikmyndamönnum fjarlægur draumur.”
Jón Már Halldórsson er fæddur 1972. Hann lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1995, 4-árs prófi í líffræði frá Háskóla Ísland árið 1996 og M.Sc.-prófi í sjávarútvegsfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Jón Már starfaði á Hagstofu Íslands frá 2000 til 2006 en hefur síðan unnið sem sérfræðingur á upplýsingasviði Fiskistofu.