Söngvar hnúfubaksins á norðurslóðum: Ný innsýn inn í viðveru og athafnir stórhvelis við Íslandsstrendur

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. apríl 2016 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er líffræðingurinn Edda Elísabet Magnúsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Söngvar hnúfubaksins á norðurslóðum: Ný innsýn inn í viðveru og athafnir stórhvelis við Íslandsstrendur.

20160422103402672832

Ágrip af erindi

“Hnúfubakur (Megaptera novaeanglia) er stórhveli af undirættbálki skíðishvala (Mysticeti). Tegundin er eitt helsta aðdráttaraflið í hvalaskoðunum við Ísland enda einn algengasti hvalurinn við strendur landsins. Á árunum 1860–1955 gekk verulega á stofninn vegna hvalveiða í N-Atlantshafi. Mat á stofninum við Ísland voru aðeins um 2000 dýr árið 1987 og því á barmi útrýmingar. Stofninn óx verulega hratt eftir 1995 og telur í dag rúmlega 11.000 dýr.
Hnúfubakar eru mikil fardýr og ferðast allt að 7000 km aðra leið milli fæðu- og æxlunarstöðva. Meginfæðustöð hnúfubaka í N-Atlantshafi er umhverfis Ísland en aðrar fæðustöðvar er að finna við N-Noreg, Grænland og austurströnd N-Ameríku. Þekktasta æxlunarsvæði hnúfubaka í N-Atlantshafi er við í Karíbahafi. Þó virðist aðeins hluti hvala frá Íslandi og Noregi nýta þær æxlunarstöðvar en þar eru ráðandi hnúfubakar frá austurströnd N-Ameríku. Einhverjir hnúfubakar frá Íslandi og Noregi nýta sér æxlunarstöðvar við Grænhöfðaeyjar, en æxlunarstofninn þar virðist mjög lítill eftir óhóflegar veiðar á svæðinu á 19. og 20. öld, eða um 300 dýr. Því eru kenningar á lofti um að fleiri æxlunarsvæði sé að finna í N-Atlantshafi sem enn á eftir að bera kennsl á.
Nýlegar hljóðrannsóknir á viðveru hnúfubaka við strendur Íslands hafa sýnt fram á að hvalirnir haldi til við norðausturströnd Íslands yfir hávetur og fram í mars. Þrátt fyrir að vera utan þekktra æxlunarstöðva syngja hnúfubakstarfarnir sína einstöku æxlunarsöngva af miklum móð á þessum tíma. Þessi sérstaka hljóðmyndun einskorðast fyrst og fremst við æxlunartímann, þ.e. nóv.–apríl. Söngatferlið á norðurslóðum undirstrikar frekari fjölbreytileika í far- og æxlunarhegðun þessarar tegundar en áður var talið.”

Edda Elísabet stundar doktorsnám í líffræði við HÍ en verkefni hennar snýr að notkun hljóðupptökutækja til rannsókna á heilsársviðveru og hegðun hnútubaka við NA-strönd Íslands. Edda lauk mastersprófi við HÍ árið 2007 þar sem hún rannsakaði heilsársviðveru höfrunga í Faxaflóa. Edda er lærður kennari og hefur sinnt kennslu við HÍ og menntaskóla sem og starfað sem leiðsögumaður og ráðgjafi fyrir hvalaskoðunarfyrirtæki og söfn.