CarbFix: Steinrenning koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í basalti

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. mars 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er jarðfræðingurinn Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir CarbFix: Steinrenning koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í basalti.

Ágrip af erindi Söndru, haldið mánudaginn 26. mars 2018.

„Frá árinu 2012 hefur koldíoxíði og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun verið dælt niður í basaltlög þar sem þessi jarðhitagös hvarfast við bergið og mynda steindir. Þessar niðurdælingartilraunir sem nú eru hluti af almennum rekstri virkjunarinnar hafa verið þróaðar af hópi vísindamanna frá Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og erlendum vísindastofnunum í samvinnu við innlenda verk- og tæknifræðinga og iðnaðarmenn undir merkjum CarbFix verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að herma náttúruleg ferli við bindingu koldíoxíðs, sem er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar, og brennisteinsvetnis sem hefur áhrif í nærumhverfi virkjunarinnar, á öruggasta mögulega hátt – með því að steinrenna gösin djúpt í berglögum.

Gösin eru leyst í vatni áður en þeim er dælt niður í berggrunninn, en þar sem gasmettaða niðurdælingarvatnið er þyngra en vatnið sem fyrir er í berggrunninum leitar það niður frekar en að rísa aftur til yfirborðs. Niðurdælingarvatnið hefur fremur lágt pH-gildi (~4) sem verður til þess að það leysir jónir úr basaltinu sem ganga í efnasamband við gösin og mynda steindir – karbónatsteindir úr koldíoxíðinu og súlfíðsteindir úr brennisteinsvetninu.

Niðurstöður tilraunaniðurdælinga á Hellisheiði sem birtar voru í Science árið 2016 sýna fram á að koldíoxíð binst í steindum í basalti á innan við tveimur árum, sem er mun hraðar en áður var talið. Niðurstöðurnar benda jafnframt til þess að brennisteinsvetni bindist enn hraðar, eða á aðeins nokkrum mánuðum. Árangur hreinsunar og niðurdælingar á koldíoxíði og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun er umtalsverður og hefur vaxíð árlega frá því að niðurdæling hófst. Árið 2017 var um þriðjungi koldíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun dælt niður í basaltlög á svæðinu, eða um 10,000 tonnum, og tæpum 70% brennisteinsvetnis, eða um 5,000 tonnum.“

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir er jarðfræðingur hjá þróunarsviði Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur unnið við CarbFix verkefnið síðan 2012, en doktorsverkefni hennar sem hún varði á síðasta ári snéri að bindimöguleikum koldíoxíðs í basalti. Hún vinnur nú með CarbFix-hópnum að því að þróa aðferðina enn frekar, með sérstaka áherslu á tilraunir á bindingu koldíoxíðs í basalti á hafssvæðum þar sem sjór gæti nýst til niðurdælinga.