Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. janúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er stjarneðlisfræðingurinn Kári Helgason sem flytjur erindi sem hann nefnir Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins.

Ágrip af erindi Kára, haldið mánudaginn 28. janúar 2019.

„Eftir að fyrstu sólstjörnurnar hófu að myndast byrjaði ljós að safnast fyrir í myrkum alheimi. Bakgrunnsljós alheimsins er uppsöfnuð birta allra þeirra stjarna sem skinið hafa í alheimssögunni og hefur því að geyma mikilvægar upplýsingar um myndun og þróun vetrarbrauta frá upphafi til dagsins í dag. Kári mun fjalla um nýlega rannsókn sína á bakgrunnsljósinu sem mælt var af mikilli nákvæmni með hjálp 740 risasvarthola í órafjarlægð. Útfrá þessum mælingum tókst að endurskapa sögu stjörnumyndunar yfir tímabil sem nær yfir 90% af sögu alheimsins.“

Kári er fæddur í Reykjavík árið 1983 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2003. Hann stundaði nám í eðlisfræði við Haskóla Íslands 2004-2008 og sökkti sér í stjönufræði við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 2006-2007. Hann hélt þvínæst til Bandaríkjanna í framhaldsnám og lauk MS-prófi í stjarnvísindum frá Háskólanum í Maryland árið 2011 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Doktorsverkefni sitt vann Kári í NASA Goddard Space Flight Center og hlaut til þess NASA Earth & Space Sciences-styrk. Fyrir doktorsverkefnið fékk hann viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknarverkefni. Árið 2014 hóf Kári störf hjá stjarneðlisfræðistofnun Max Planck í Þýskalandi sem Marie Curie-styrkþegi og stundaði þar rannsóknir í fjögur ár. Hann fluttist til Íslands árið 2018 þar sem hann gegnir stöðu sérfræðings við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.