Nýr Náttúrufræðingur komin út

Náttúrufræðingurinn, 3.–4. hefti 88. árgangs, er kominn út. Að venju er í tímaritinu fjölbreytt efni um rannsóknir á íslenskri náttúru og fróðlegar greinar um náttúrufar. Klasarnir á Kálfastrandarvogi í Mývatni prýða forsíðu tímaritsins en meðal efnis er grein um vöktun silungs í Mývatni 1986–2016 og önnur um áhrif lífríkis á efnasamsetningu vatnsins. Af öðru spennandi efni má nefna grein um magn kalkþörungasets á Vestfjörðum og í Húnaflóa og grein um áhrif vegalagningar í kjölfar virkjunarframkvæmda á áður fáförnum slóðum.

LEIÐRÉTTING: Þau mistök urðu við prentun 3.-4. heftis Náttúrufræðingsins, 88. árg. að mynd á bls. 94 sem sýna átti lengdardreifingu bleikju í rannsóknaveiðum í Mývatni 1986–2016 sýndi aðeins lengdardreifingu á árinu 1986. Með hlekknum hér að neðan má hlaða niður og prenta út leiðréttri blaðsíðu. Höfundur og lesendur eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum. NFR_88_3-4_Silungur-bls 94 Leiðrétt

Ágrip efnis í 3.–4. hefti 88. árgangs:

Eru veiðitakmarkanir í Mývatni að skila sér?

Fiskistofnar í Mývatni hafa minnkað verulega frá því skráning veiða hófst árið 1900. Upp úr 1920 voru veiddir yfir eitt hundrað þúsund silungar (bleikja og urriði) á ári, en 2016 veiddust aðeins 1.476 silungar í Mývatni. Vísbendingar eru um að veiðitakmarkanir, sem tóku gildi 2011, séu farnar að skila sér í uppbyggingu bleikjustofnsins. Guðni Guðbergsson skrifar um Veiðinýtingu og stofnsveiflur Mývatns á árunum 1986–2016.

Samgöngubætur á víðernum – kostir og gallar

Virkjunum fylgja jafnan vegaframkvæmdir og stórbætt aðgengi að áður fáförnum náttúrusvæðum. En slíkar framkvæmdir höfða aðeins til ákveðinna hópa ferðamanna en fæla aðra frá. Edward H. Huijbens og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa greinina Virkjun áfangastaða um hlutverk samgöngubóta samhliða virkjunarframkvæmdum. Í greininni er rýnt í rannsóknir á áhrifum fyrirhugaðra virkjana á ferðamennsku á Hengilssvæðinu og í Ófeigsfirði á Ströndum, sem og nokkurra virkjunarhugmynda sem voru til skoðunar í 3. áfanga rammaáætlunar.

170 milljón rúmmetrar af kalkþörungaseti

Rannsóknir hafa leitt í ljós að gríðarlegt magn kalkþörungasets er að finna í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Rannsóknir Kjartans Thors á árunum 20000–2012 m.a. með endurvarpsmælingum og sýnatökum hafa leitt í ljós að magnið nemur samtals um 170 milljón rúmmetrum. Grein Kjartans nefnist: Útbreiðsla og magn kalkþörungasets á Vestfjörðum og í Húnaflóa, og voru að mestu unnar fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf. sem hefur rekið kalkþörungavinnslu í Bíldudal frá 2007.

Blágrænþörungablóminn í Mývatni

Frumframleiðni græn- og kísilþörunga í Mývatni takmarkast af köfnunarefni. Það á ekki við um blágrænbakteríur sem binda köfnunarefni úr andrúmslofti – og því getur fosfór á endanum takmarkað frumframleiðni í vatninu. Í grein um Áhrif lífríkis á efnastyrk í Mývatni skýrir Eydís Salome Eiríksdóttir ásamt 5 meðhöfundum samhengið milli styrks fosfórs og magns mýlirfa á botni vatnsins. Þar gæti lykilinn að leirlosinu eða blóma blágrænbaktería, verið að finna.

Stormmáfar í Eyjafirði

Stormmáfum hefur fjölgað til margra ára og nýir varpstaðir stöðugt bæst við víða um land. Eyjafjörður er eina stóra svæðið í landinu þar sem fylgst er skipulega með stofnbreytingum þessarar tegundar. Sverrir Thorstensen og Ævar Petersen greina frá talningum í Eyjafirði 2015. Þá voru 622 pör á vöktunarsvæðinu og hafði fækkað um 38 frá 2010. Niðurstöður talninga frá 1980 hafa birst áður í Náttúrufræðingnum.

Upphaf íslenskrar grasafræði og brot úr sögu vatnalíffræðirannsókna á Íslandi

Helgi Hallgrímsson ritar um elstu prentaðar heimildir um plönturíki Íslands, en upphafið var könnun Johans Gerhard König á flóru Íslands. König safnaði plöntum hér á landi 1764–1765 fyrir ritsafnið Flora Danica.

Gunnar Steinn Jónsson segir frá heimsókn þýska vatnalíffræðingsins Friedrich Kurt Reinsch til Íslands í júlí 1925 og smásjánni Heimdal. Reinsch kom hingað á vegum Búnaðarfélags Íslands og hafði látið útbúa sérstaka feltsmásjá til fararinnar. Hann nefndi hana Heimdal.

Af öðru efni í ritinu má nefna leiðara sem Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags skrifar um Miðlun þekkingar og fræðslu um náttúru Íslands og náttúruvernd; myndir frá opnun sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands sem er fyrsta  sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands stendur fyrir; ritrýni á bók Guðmundar Eggertssonar, Rök lífsins og eftirmæli um Margréti Guðnadóttur veirufræðing, en hún lést 2. janúar 2018.

Þetta er 3.–4. hefti 88. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 100 bls. að stærð. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og fyrir hjón.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.