Fræðsluganga í Blikastaðakró

Sunnudaginn 29. september stendur Hið Íslenska Náttúrufræðifélag fyrir fræðslugöngu um Blikastaðakró. Blikastaðakró er nafn yfir um 2 km langa strandlengju frá ósi Úlfarsár vestur að Eiðinu út í Geldingarnes. Strandlínan er náttúruleg og lítið röskuð og skiptast á grunnar víkur með sandi og malarfjörum og klettanef sem ganga í sjó fram. Gorvík er dýpsta víkin í Blikastaðakró og þar er töluverð þangfjara. Dýralíf er auðugt, sérstaklega fuglalíf – einkum er mikið um æðarfugl, máfa og vaðfugla sem sækja á leirusvæði. Margæsir sjást þar í stórum hópum á fartíma. Algengt er að sjá seli liggja á skerjum. Ýmis fjörudýr er þar að finna og m.a. hefur risaskeri, stórvaxinn burstaormur, fundist í nokkrum mæli en hann grefur sig í sandinn á leirunum. Áhersla verður á fuglalíf á svæðinu og munu Snorri Sigurðsson, líffræðingur og Jón Baldur Hlíðberg, myndlistamaður leiða gönguna. Mæting er kl. 13.00 við ósa Úlfarsá. Gengið verður í átt að Geldingarnesi og endað við Gorvík. Bílastæði má finna neðst við Barðastaði. Frá Korpúlfsstaðarvegi er beygt niður Barðastaði (hjá  OB – bensín) og veginum fylgt beint niður að sjó. Bílastæðið má finna þar á vinstri hönd. Klæðið ykkur eftir veðri og takið með sjónauka. Gangan er ekki erfið. Miðað er við að hún taki um 2 klst. Ferðin er ókeypis.