hrímþoka

Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 28. febrúar. Fundurinn verður haldinn í Krummasölum í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti og á Microsoft Teams (slóð auglýst síðar).

Fyrir dagskrá aðalfundar heldur Sigrún Helgadóttir erindi um bók sína Sigurður Þórarinsson, Mynd af manni I-II. Sigrún hlaut á dögunum íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bók sína um Sigurð, fyrrum formann félagsins. 

Dagskráin hefst kl. 19:00 með erindi Sigrúnar en aðalfundarstörf hefjast kl. 20:00. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:

  1. Skýrt frá helstu framkvæmdum á liðna árinu.
  2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Kosin stjórn og formenn faghópa, tveir skoðunarmenn reikninga og einn skoðunarmaður til vara.
  4. Önnur mál.

Á fundinum mun stjórn tilnefna tvo heiðursfélaga

Lagabreytingar

Stjórn leggur til lagabreytingu í tilefni þess að stjórn vill að félagsmenn geti setið í stjórn óháð búsetu en kröfur banka um undirritun eyðublaða getur reynst stjórninni erfið ef stjórnarmaður býr langt frá útibúi og er ekki með rafræn skilríki:

6. grein. Sjö manna stjórn sér um framkvæmdir félagsins og annast öll málefni þess. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega en stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti. Annað árið ganga út úr stjórninni formaður og þrír aðrir stjórnarmenn, en hitt árið þrír stjórnarmenn. Við undirritun skjala eða eyðublaða nægir að meirihluti stjórnarmanna skrifi undir eða staðfesti með rafrænum skilríkjum nema landslög kveði á um annað.

Stjórn leggur til lagabreytingu í tilefni þess að útgáfa Náttúrufræðingsins mun verða með breyttu sniði á nýju starfsári.

8. grein. Félagið gefur út tímaritið Náttúrufræðinginn, er félagsmenn fá ókeypis. Í honum skal hvert ár birta skýrslu um starfsemi og hag félagsins. Efni ritsins er öllum aðgengilegt á veraldarvefnum en félagsmenn verði spurðir sérstaklega hvort þeir vilji fá sent prentað eintak, sér að kostnaðarlausu. Við útgáfu ritsins skal leitast við að fara sem umhverfisvænastar leiðir, t.a.m. með umhverfisvottaðari prentun.

Fundargestir eru minntir á einstaklingsbundnar smitvarnir og gildandi sóttvarnarreglur (hverjar sem þær verða í lok febrúar). Slóð á viðburðinn verður send út með auglýsingu á vef félagsins www.hin.is og á samfélagsmiðlum.