Greinasafn fyrir merki: Aðalfundur

Ný stjórn félagsins

Þann 27. febrúar síðastliðinn fór fram aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags í húsnæði Náttúrufræðistofnunar Íslands. Að loknu áhugaverðu erindi Sigurðar Thorlacius um áhrif matvælaframleiðslu á líffræðilegan fjölbreytileika var gengið til hefðbundinna aðalfundarstarfa. Þar á meðal fór fram kjör stjórnar félagsins. Ný stjórn hefur nú skipt með sér verkum en hana skipa:

  • Sölvi Rúnar Vignisson, formaður.
  • Sveinn Kári Valdimarsson, varaformaður
  • Anna Heiða Ólafsdóttir, félagsvörður.
  • Benedikt Traustason, vefstjóri.
  • Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, gjaldkeri.
  • Einar Pétur Jónsson, kynningarstjóri.
  • María Helga Guðmundsdóttir, ritari.

Á sama tíma létu af störfum:

  • Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður.
  • Hrefna Sigurjónsdóttir, varaformaður.
  • Hrefna Berglind Ingólfsdóttir, ritari
  • Hlín Halldórsdóttir, vefstjóri.
  • Helena W. Óladóttir, fræðslustjóri.

Er þeim þakkað kærlega fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins. 

Heiðursfélagar og ársskýrsla

Fyrir aðalfund félagsins hélt Sigrún Helgadóttir einkar áhugavert erindi um Sigurð Þórarinsson jarðfræðing en hún skrifaði verlaunabókina Mynd af manni sem fjallar um ævi Sigurðs.

Á aðalfundi félagsins, síðar um kvöldið voru síðan tilnefndir tveir heiðursfélagar, þau Ágúst H. Bjarnason og Álfheiður Ingadóttir.

Gróa Valgerður, fráfarandi ritari, kynnti ákvörðun stjórnar hvað snerti Ágúst H. en Árni Hjartarson, fyrrum formaður félagsins hélt tölu um Álfheiði.

Ágúst var formaður félagsins árin 1984-1985. Hann var mjög drífandi í hlutverki sínu sem formaður, enda ber hann miklar taugar til félagsins. Á þessum árum tókst að koma útgáfu Náttúrufræðingsins á réttan kjöl, farið í vandaðar dagsferðir, staðið fyrir ljósmyndakeppni og námskeiðum. Sömuleiðis var hafinn mikill áróður fyrir endurreisn náttúrugripsafnsins en hann hafði legið lengi í láginni. Síðast en ekki síst stóð Ágúst og stjórn hans fyrir gerð tveggja veggmynda fyrir félagið. Annars vegar var um að ræða fuglamyndir eftir Jón Baldur Hlíðberg en hann var þá að stíga sín fyrstu skref hvað snerti náttúrulífsmynda. Hins vegar var um að ræða veggmynd eftir Eggert Pétursson af flóru Íslands sem Ágúst valdi af kostgæfni tegundirnar fyrir. En Ágúst og Eggert höfðu einmitt átt samstarf vegna bókar Ágústs, Íslensk flóra með litmyndum sem kom út 1983. Það er skemst frá því að segja að eftirprentanir af veggmyndinni seldust vel og var félaginu kærkomin tekjulind á 9. áratugnum!

Rétt er að nefna það auki að Ágúst hefur unnið ötullega að markmiðum félagsins, að glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði – bæði í starfi sínu og frítíma. Sem fyrr var nefnt gaf hann út íslenska flóru árið 1983 og nú 2018 gaf hann út Mosar á Íslandi sem hefur fengið verðskuldaða athygli. Sömuleiðis heldur hann úti heimasíðu með ýmsum fróðleik en mest um grasafræði, auk þess að deila fróðleiksmolum á Facebook. 

Árni Hjartarson fór í gegnum líf og starf Álfheiðar en það vill svo skemmtilega til að hún er fædd 1. maí sem e.t.v. hefur eitthvað með það að gera hve mikil baráttukona hún er. Hún hefur löngum látið til sín taka í stjórnmálum og var hún þegar byrjuð á því sviði er hún kom til líffræðináms í Háskóla Íslands. Hún hefur löngum litið á náttúruna sem sinn skjólstæðing og sýnt það bæði í starfi sínu sem stjórnmálamaður og sem líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands en hún hefur verið ritstjóri Náttúrufræðingsins lengst allra ritstjóra þess merkilega rits eða frá 1997-2006 og aftur 2014-2021. Þar hefur hún lengi haft að leiðarljósi mikilvægi þess að textinn sé aðgengilegur og auðlesinn öllum enda sé um að ræða rit þar sem hugmyndir og hugtök fái að þroskast og þróast á hinu ástkæra ilhýra. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að tjá sig um öll svið náttúrufræðinnar á kjarngóðri íslensku. Að lokum má geta þess að þó Álfheiður sé nú skriðin yfir sjötugt og formlega hætt sem ritstjóri þá er hún nýráðnum ritstjóra Náttúrufræðingsins innan handar á meðan hún er að komast inn í starfið og er það mjög þakkarvert!

Fráfarandi stjórn þakkar Sigrúnu, Ágústi, Álfheiði og Árna, kærlega fyrir!

Meðfylgjandi myndir voru teknar af Helenu W. Óladóttur og birtar með góðfúslegu leyfi allra sem á þeim sjást. Þar sést Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður HÍN, afhenda nýjum heiðursfélögum skjal og blómvönd. Lengst til hægri sést Sigrún Helgadóttir flytja erindi sitt.

Aðalfundargerð, ársskýrslu og ársreikninga má nálgast undir flipanum efst á síðunni, Um félagið.

Aðalfundi lokið og ný stjórn tekin við

Aðalfundur félagsins var haldinn í gær, 28. febrúar í Krummasölum Náttúrufræðistofnunar, auk þess að vera streymt. Aðalfundargerð má nálgast hér á heimasíðunni.

Á fundinum voru kosnir þrír nýjir stjórnarliðar sem við bjóðum hjartanlega velkomna og í kvöld fundaði nýja stjórnin auk fráfarandi ritara, Gróu Valgerði Ingimundardóttur. Það er ekki laust við að það hafi verið sérstaklega ánægjulegt að sjá stjórnina fullskipaða en hún hefur verið fámenn nú um nokkurt skeið. Stjórnin skipti með sér verkum í kvöld og varð verkaskiptingin eftirfarandi:

Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður, endurkjörin til tveggja ára 2022
Hrefna Sigurjónsdóttir, varaformaður, endurkjörin til tveggja ára 2021
Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, gjaldkeri, kosin til tveggja ára 2022
Hrefna Berglind Ingólfsdóttir, ritari, kosin til eins árs 2022
Anna Heiða Ólafsdóttir, félagsvörður, endurkjörin til tveggja ára 2022
Helena W. Óladóttir, fræðslustjóri, endurkjörin til tveggja ára 2022
Hlín Halldórsdóttir, meðstjórnandi, kosin til eins ár 2022

Þess má geta að þetta er fyrsta stjórnin sem einungis er skipuð konum frá stofnun félagsins árið 1889. Þær voru líklega nokkrar stjórnirnar í upphafi sem einungis voru skipaðar körlum en svona vildi þetta til í þetta sinn. Hins vegar er rétt að halda því til haga að báðir skoðunarmenn reikninga eru karlmenn, þeir Sveinbjörn Egill Björnsson og Steinþór Níelsson, auk þess sem það eru fjórir karlar sem sitja nefnd Flóruvina þó forsvarsmaðurinn sé kona en Gróa Valgerður var endurkjörin í þá stöðu í gær.

Aðalfundur HÍN og fræðsluerindi 28. febrúar

Erindi Sigrúnar Helgadóttur um bók hennar Sigurður Þórarinsson, Mynd af manni I-II, verk Sigurðar og hvað hann gerði fyrir HÍN. Hann var formaður í aðeins 2 ár en hafði mikil áhrif. Erindið byrjar klukkan 19:00. Slóð á Teams streymi má nálgast hér.

Dagskrá aðalfundar byrjar kl. 20:00. Slóð á Teams streymi má nálgast hér.

Erindið og fundurinn fer fram á Náttúrufræðistofnun, Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ. Ekið er framhjá Kauptúni og eftir Urriðaholtsstræti, meðfram húsi Náttúrufræðistofnunar. Ekið er upp á efra stæði austan hússins og farið inn um hurð á vestari inngangi. Þar verða blöðrur til að sýna hvar farið er inn á fundinn.

Þeir sem koma gangandi geta farið sömu leið eða upp járnstiga sem er við starfsmannainngang þar sem ekið er inn í bílageymslu vestanmegin.

Ekið er framhjá Kauptúni og eftir Urriðaholtsstræti, meðfram húsi Náttúrufræðistofnunar. Ekið er upp á efra stæði austan hússins og farið inn um hurð á vestari inngangi. Þar verða blöðrur til að sýna hvar farið er inn á fundinn.