


Fyrir aðalfund félagsins hélt Sigrún Helgadóttir einkar áhugavert erindi um Sigurð Þórarinsson jarðfræðing en hún skrifaði verlaunabókina Mynd af manni sem fjallar um ævi Sigurðs.
Á aðalfundi félagsins, síðar um kvöldið voru síðan tilnefndir tveir heiðursfélagar, þau Ágúst H. Bjarnason og Álfheiður Ingadóttir.
Gróa Valgerður, fráfarandi ritari, kynnti ákvörðun stjórnar hvað snerti Ágúst H. en Árni Hjartarson, fyrrum formaður félagsins hélt tölu um Álfheiði.
Ágúst var formaður félagsins árin 1984-1985. Hann var mjög drífandi í hlutverki sínu sem formaður, enda ber hann miklar taugar til félagsins. Á þessum árum tókst að koma útgáfu Náttúrufræðingsins á réttan kjöl, farið í vandaðar dagsferðir, staðið fyrir ljósmyndakeppni og námskeiðum. Sömuleiðis var hafinn mikill áróður fyrir endurreisn náttúrugripsafnsins en hann hafði legið lengi í láginni. Síðast en ekki síst stóð Ágúst og stjórn hans fyrir gerð tveggja veggmynda fyrir félagið. Annars vegar var um að ræða fuglamyndir eftir Jón Baldur Hlíðberg en hann var þá að stíga sín fyrstu skref hvað snerti náttúrulífsmynda. Hins vegar var um að ræða veggmynd eftir Eggert Pétursson af flóru Íslands sem Ágúst valdi af kostgæfni tegundirnar fyrir. En Ágúst og Eggert höfðu einmitt átt samstarf vegna bókar Ágústs, Íslensk flóra með litmyndum sem kom út 1983. Það er skemst frá því að segja að eftirprentanir af veggmyndinni seldust vel og var félaginu kærkomin tekjulind á 9. áratugnum!
Rétt er að nefna það auki að Ágúst hefur unnið ötullega að markmiðum félagsins, að glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði – bæði í starfi sínu og frítíma. Sem fyrr var nefnt gaf hann út íslenska flóru árið 1983 og nú 2018 gaf hann út Mosar á Íslandi sem hefur fengið verðskuldaða athygli. Sömuleiðis heldur hann úti heimasíðu með ýmsum fróðleik en mest um grasafræði, auk þess að deila fróðleiksmolum á Facebook.
Árni Hjartarson fór í gegnum líf og starf Álfheiðar en það vill svo skemmtilega til að hún er fædd 1. maí sem e.t.v. hefur eitthvað með það að gera hve mikil baráttukona hún er. Hún hefur löngum látið til sín taka í stjórnmálum og var hún þegar byrjuð á því sviði er hún kom til líffræðináms í Háskóla Íslands. Hún hefur löngum litið á náttúruna sem sinn skjólstæðing og sýnt það bæði í starfi sínu sem stjórnmálamaður og sem líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands en hún hefur verið ritstjóri Náttúrufræðingsins lengst allra ritstjóra þess merkilega rits eða frá 1997-2006 og aftur 2014-2021. Þar hefur hún lengi haft að leiðarljósi mikilvægi þess að textinn sé aðgengilegur og auðlesinn öllum enda sé um að ræða rit þar sem hugmyndir og hugtök fái að þroskast og þróast á hinu ástkæra ilhýra. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að tjá sig um öll svið náttúrufræðinnar á kjarngóðri íslensku. Að lokum má geta þess að þó Álfheiður sé nú skriðin yfir sjötugt og formlega hætt sem ritstjóri þá er hún nýráðnum ritstjóra Náttúrufræðingsins innan handar á meðan hún er að komast inn í starfið og er það mjög þakkarvert!
Fráfarandi stjórn þakkar Sigrúnu, Ágústi, Álfheiði og Árna, kærlega fyrir!
Meðfylgjandi myndir voru teknar af Helenu W. Óladóttur og birtar með góðfúslegu leyfi allra sem á þeim sjást. Þar sést Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður HÍN, afhenda nýjum heiðursfélögum skjal og blómvönd. Lengst til hægri sést Sigrún Helgadóttir flytja erindi sitt.
Aðalfundargerð, ársskýrslu og ársreikninga má nálgast undir flipanum efst á síðunni, Um félagið.