Ár hvert funda stjórnarmeðlimir norrænu grasafræðifélaganna. Félögin sem um ræðir eru Sænska grasafræðifélagið (Svensk Botanisk Förening), Norska grasafræðifélagið (Norsk Botanisk Forening), Danska grasafræðifélagið (Dansk Botanisk Forening), Flóruvinir (Hið íslenska náttúrufræðifélag) og fulltrúar Finna en þar er þó ekkert formlegt grasafræðifélag.
Félögin skiptast á um að halda fundinn, Norska grasafræðifélagið stóð fyrir stafrænum fundi sem haldinn var í fyrra, Sænska grasafræðifélagið stóð fyrir fundinum í ár og á næsta ári verður fundurinn haldinn í Danmörku.
Líkt og á Íslandi, hafa ekki fundist forsendur fyrir formlegu grasafræðifélagi í Finnlandi en vonir standa til að geta stofnað þar félag í sambandi við ársfundinn í Finnlandi 2024.
Fundurinn í ár var haldinn í Uppsölum í Svíþjóð en þar rétt utan við bæinn eru húsakynni sænska félagsins. Húsakynnin eru öll hin huggulegustu og aðstaðan afbragðsgóð fyrir fundi sem þessa. Veggirnir voru m.a. skreyttir myndum úr myndasamkeppni af þjóðarblómi Svía, bláklukkunni (Campanula rotundifolia) og veggspjaldi með frímerkjum af þjóðarblóminu.
Fundurinn fór fram 29.-30. október og voru báðir dagar nokkuð þétt pakkaðir erindum um starfsemi félaganna og fréttir tengdum grasafræði í hverju landi. Fundargestir voru tólf talsins, fjórir starfsmenn SBF, tveir frá DBF, þrír frá NBF, tveir frá Finnlandi auk undirritaðrar. Félögin kynntu árangurinn af Degi hinna villtu blóma, kynntu nýtt útgefið efni, átaksverkefni og margt fleira sem ég mun kynna betur síðar.



