Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðsluferðir

Gönguferð HÍN á Þríhnúkagíg

Það var bæði rok og rigning þegar hópur göngufólks hittist á Bláfjallaveginum í gærkvöldi. Þrátt fyrir óskemmtilegt veður (sjá myndir) ákváðu rúmlega 20 manns að ganga á Þríhnúkagíg undir öruggri leiðsögn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings.

Ferðin var blaut en það var þó kátur hópur sem kom í bílana um hálftíu leytið eftir fræðandi ferð. Útsýninu yfir höfuðborgarsvæðið og Snæfellsnes sem lýst var fjálglega í leiðarlýsingunni fyrir ferðina misstum við alveg af – þetta kallar því á að fólk endurtaki gönguna í betra veðri síðar.

Myndir: Albert Þorbergsson.

Ferð í Grændal í júní 2005

Farið var í gönguferð í Grændal 23. júní 2005. Grændalur er einn þriggja dala sem liggja til norðurs úr Ölfusdal, skammt norðvestan við Hveragerði. Jarðhiti og gróður er óvenju fjölbreyttur í Grændal og er dalurinn á náttúruminjaskrá (nr. 752). Í nýju náttúruverndaráætluninni sem verið hefur til umfjöllunar á Alþingi er gerð tillaga af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar um að Grændalur og Reykjadalur, næsti dalur fyrir vestan Grændal, verði að friðlandi. Í forsendum fyrir tillögunni stendur m.a. að „Jarðhitasvæði í líkingu við Grændal eru sennilega ekki til í Evrópu utan Íslands og eitt fágætra slíkra svæða í heiminum.“

Góð þátttaka var í ferðinni og heppnaðist hún í alla staði mjög vel. Leiðangursstjórar voru tveir valinkunnir fræðimenn og þaulkunnugir svæðinu, þeir Eyþór Einarsson grasafræðingur og Helgi Torfason jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Siglt um Sundin við Reykjavík í maí 2005

Laugardaginn 28. maí 2005 var velheppnuð ferð um Sundin við Reykjavík endurtekin frá árinu áður. HÍN bauð nú aftur upp á siglingu með Viðeyjarferjunni ehf. um Sundin og var m.a. siglt út að Lundey og lónað umhverfis eyna, siglt um Þerneyjarsund að Viðey og stigið á land og fjörulífið skoðað. Veðrið var gott og tæplega 40 manns mættu.

Fararstjórar og leiðbeinendur í ferðinni voru Árni Hjartarson jarðfræðingur á Orkustofnun, Konráð Þórisson líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni og Arnór Þ. Sigfússon fuglafræðingur hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen ehf.

Kristín Svavarsdóttir tók myndirnar á síðunni sem teknar voru í ferðinni.
Hægt er að stækka hverja mynd með því að smella á myndina.