Greinasafn fyrir merki: Ritstjóri

Nýr ritstjóri Náttúrufræðingsins

Gengið hefur verið frá ráðningu í starf ritstjóra Náttúrufræðingsins sem Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands auglýstu laust til umsóknar 22. nóvember s.l. en umsóknarfrestur rann út þann 15. desember. Alls bárust sex umsóknir um starfið og var samhljóða niðurstaða beggja aðila að ráða Margréti Rósu Jochumsdóttur sem nýjan ritstjóra Náttúrufræðingsins.

Margrét hefur meistaragráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og hefur víðtæka reynslu í útgáfu og vefumsjón auk þess sem hún stundar nú nám í umhverfis- og auðlindafræði. Mun Margrét sjá um hefðbundna útgáfu blaðsins auk þess að hafa umsjón með nýrri vefútgáfu tímaritsins. Margrét hefur störf í byrjun febrúar 2022 og áætlað er að vefur tímaritsins verði opnaður á aðalfundi félagsins í lok febrúar, ef allt gengur eftir. Við bjóðum Margréti velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins. Álfheiði Ingadóttur, fráfarandi ritstjóra, þökkum við kærlega fyrir áratugastarf við útgáfu blaðsins en hún mun starfa áfram við ýmis störf fyrir Náttúruminjasafnið.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins – laust starf til umsóknar

Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) og Náttúruminjasafn Íslands (NMSÍ), sem í sameiningu gefa út tímaritið Náttúrufræðinginn, auglýsa hér með starf ritstjóra laust til umsóknar. 

Náttúrufræðingurinn er fræðslurit um náttúrufræði þar sem áhersla er lögð á efni sem byggir á athugunum og rannsóknum á náttúru Íslands. Tímaritið hefur komið út samfleytt síðan 1931, eða í 90 ár. Fjögur hefti (tvö tvöföld) eru að jafnaði gefin út á ári og er hver árgangur um 160 blaðsíður. Hluti greinanna er ritrýndur en einnig er um að ræða ritstýrðar greinar, efni fyrir yngri sem eldri lesendur, þ.m.t. nemendur grunn- og framhaldsskóla, gagnrýni og ritfregnir svo dæmi séu tekin úr ritstjórnarstefnu ritsins.

Frá og með næsta ári mun tímaritið verða í opnum aðgangi auk prentaðrar útgáfu. Auk þessa verður annað efni eingöngu aðgengilegt á vef Náttúrufræðingsins, í anda ný samþykktrar ritstjórnarstefnu, og verður umsjón með vefnum einnig á herðum ritstjóra.

Hið íslenska náttúrufræðifélag (hin.is) eru frjáls félagasamtök, stofnuð 1889, sem m.a. vinna að því að efla áhuga almennings á náttúru Íslands, miðla náttúrurannsóknum og koma á framfæri fróðlegu efni um náttúrufræði og umhverfismál. Náttúruminjasafn Íslands (nmsi.is), sem var stofnað 2007, er eitt þriggja höfuðsafna landsins og heyrir til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Helstu verkefni

  • Umsjón með ritstjórn og útgáfu Náttúrufræðingsins. Það felur í sér að funda og vinna með ritstjórn tímaritsins, afla efnis fyrir ritið, tryggja fagleg gæði efnis og ritrýni, greinaprófarkalestur, umbrot, prentun og dreifingu.
  • Vefumsjón með efni Náttúrufræðingsins á nýrri vefsíðu (natturufraedingurinn.is) sem ætluð er öllum þeim sem áhuga hafa á náttúrufræðum, umhverfis- og náttúruvernd;  þ.m.t. ungum lesendum.
  • Umsjón með efni eingöngu ætlað fyrir vefútgáfu, afla efnis og tryggja fagleg gæði þess. 

Hæfniskröfur

  • Þekking og reynsla af ritstjórn og vefumsjón er nauðsynleg.
  • Ritfærni og góð kunnátta í íslensku og ensku er nauðsynleg.
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, helst meistaragráða, og góð þekking í náttúrufræðum er nauðsynleg.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í starfi.

Kaup og kjör

Um er að ræða 80% starf með möguleika á aukningu á starfshlutfalli. Starfsaðstaða og búnaður er á skrifstofu Náttúruminjasafnsins. Laun taka mið af stofnanasamningi Náttúruminjasafnsins og viðeigandi stéttarfélags. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. janúar nk., eða samkvæmt samkomulagi.

Umsókn

Umsóknarfrestur er til 15. desember nk.

Umsóknum skal fylgja greinargott kynningarbréf ásamt ferilskrá þar sem fram koma upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjanda auk upplýsinga um tvo meðmælendur.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. 

Sjá nánar á Starfatorgi stjórnarráðsins


HIN_logo_m_texta