Ferð í Grændal í júní 2005

Farið var í gönguferð í Grændal 23. júní 2005. Grændalur er einn þriggja dala sem liggja til norðurs úr Ölfusdal, skammt norðvestan við Hveragerði. Jarðhiti og gróður er óvenju fjölbreyttur í Grændal og er dalurinn á náttúruminjaskrá (nr. 752). Í nýju náttúruverndaráætluninni sem verið hefur til umfjöllunar á Alþingi er gerð tillaga af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar um að Grændalur og Reykjadalur, næsti dalur fyrir vestan Grændal, verði að friðlandi. Í forsendum fyrir tillögunni stendur m.a. að „Jarðhitasvæði í líkingu við Grændal eru sennilega ekki til í Evrópu utan Íslands og eitt fágætra slíkra svæða í heiminum.“

Góð þátttaka var í ferðinni og heppnaðist hún í alla staði mjög vel. Leiðangursstjórar voru tveir valinkunnir fræðimenn og þaulkunnugir svæðinu, þeir Eyþór Einarsson grasafræðingur og Helgi Torfason jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.