„Skeiðarársandur – séður með augum plöntuvistfræðings“

Mánudag 26. mars 2007 munu plöntuvistfræðingarnir dr. Kristín Svavarsdóttir hjá Landgræðslu ríkisins og dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við Háskóla Íslands segja frá rannsóknum sínum í erindi sem nefnist „Skeiðarársandur – séður með augum plöntuvistfræðings“.

Í lok síðustu ísaldar mynduðust víðáttumiklir sandar og aurar þegar jöklar hopuðu, t.d. í Evrópu. Nú á dögum er Ísland eitt örfárra landa þar sem hægt er að rannsaka landnám plantna og gróðurframvindu við slíkar aðstæður. Skeiðarársandur er líklega stærsti jökulsandur jarðar og þar gefst einstakt tækifæri til að greina og skilja þá þætti sem takmarka landnám plantna og stýra stefnu og hraða framvindu. Rannsóknir á gróðurfari og þróun gróðurs á sandinum hófust sumarið 1998 og taka til svæðisins milli Gígjukvíslar og Skeiðarár. Stafræn gróðurkortlagning af sandinum sýndi að rúmlega 70% sandsins eru lítt gróin (<10% gróðurþekja) en á um 15% svæðisins er yfir helmingur yfirborðs þakinn gróðri. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknir á gróðurframvindu svæðisins en búast má við að hluti sandsins verði vaxið birkikjarri í framtíðinni að því gefnu að það verði ekki alvarlegt rask.