HÍN hlaut veglegan útgáfustyrk

Hið íslenska náttúrufræðifélag hlaut í byrjun júní styrk að upphæð 500.000 kr. úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups. Styrkurinn verður notaður til að greiða Landsbókasafni Íslands–Háskólabókasafni fyrir vinnu við að snara Náttúrufræðingnum yfir á stafrænt snið, en samningur um þar að lútandi verk var undirritaður í janúar s.l.

styrkur_1

Kristín Svavarsdóttir, formaður HÍN, veitti styrknum viðtöku og þakkaði fyrir við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 11. júní (sjá meðfylgjandi mynd). Alls bárust 175 umsóknir í Náttúruverndarsjóð Pálma Jónssonar en styrk hlutu 32 aðilar.

Í verksamningnum við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er kveðið á um að vinna stafrænar myndir af öllum tölublöðum Náttúrufræðingsins frá upphafi útgáfu ritsins árið 1931 til og með 73. árgangs. Jafnframt tekur safnið að sér að miðla endurgjaldslaust á veraldarvefnum til almennings þeim gögnum er til verða á grundvelli samningsins.

Stefnt er að því að ljúka stafrænu endurgerðinni fyrir næstu áramót.