Sérsviðadeildir innan félagsins

Samkvæmt lögum Hins íslenska náttúrufræðifélags er tilgangur þess að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði. Eins og heyra má er um að ræða breytt svið og því er full þörf á að virkja félagsmenn innan mismunandi áhugasviða til að efla hvert sérsvið fyrir sig. Í lögum félagsins stendur einnig að stjórn þess geti tilnefnt nefndir og ráð til að sinna tilteknum verkefnum. Á fundi sínum þann 3. mars síðastliðinn, samþykkti stjórnin að nýta sér þennan möguleika en áhugamannahópurinn Flóruvinir höfðu áður sýnt því áhuga að fella starf sitt undir félagið með þessum hætti. Það er von stjórnar að mjór sé mikils vísir og að forsendur séu fyrir fleiri deildum af þessu tagi, með mismunandi sérsvið.

Fyrirkomulag deildastarfs er með þeim hætti að stjórn velur nefndarformann sem síðan fær með sér tvo til fimm aðra úr félaginu til að vinna að málefnum deildarinnar, eftir því sem þurfa þykir. Áhugasamir félagsmenn, hvar sem er á landinu, eru hvattir til að hafa samband við stjórn félagsins ef þeir hafa áhuga á að taka þátt í starfi sem þessu, hvort sem það er til að stofna nýja deild eða nefnd á sínu áhugasviði eða sitja í stjórn Flórudeild félagsins. Í nefndum sínum geta nefndarmenn að sjálfsögðu gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn þegar kemur að því að finna spennandi leiðir til að efla áhuga og þekkingu fólks á sérsviði sinnar nefndar. Sem dæmi má þó nefnda að starfsemi deilda getur falið í sér skoðunarferðir, efni á heimasíðu félagsins, umsjón hópa á Facebook, námskeið, ljósmyndakeppnir o.s.frv.