„Breytingar á lífríki Breiðafjarðar: Vöktun sjófuglastofna“

Næsta fræðsluerindi á dagskrá Hins íslenska náttúrufræðifélags verður mánudaginn 30. apríl kl. 17:15, stofu 132, í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans. Þá mun dr. Ævar Petersen dýrafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands flytja erindi sem hann nefnir „Breytingar á lífríki Breiðafjarðar: Vöktun sjófuglastofna.“

Á Breiðafirði verpa 12 tegundir sjófugla af þeim 23 sem verpa á Íslandi. Sjófuglastofnar hafa verið vaktaðir í Breiðafjarðareyjum í yfir 30 ár mismikið eftir tegundum en rannsóknir á teistu hafa verið umfangsmestar. Talsverðar breytingar hafa orðið á sjófuglastofnum undanfarna áratugi bæði fjölgun og fækkun. Síðustu ár hefur varp misfarist hjá vissum tegundum og sumir stofnar dregist saman, einkum stofnar ritu, toppskarfs, kríu og fýls, sumir umtalsvert. Samkvæmt verndarviðmiðunum ætti toppskarfur að vera settur á válista. Teistum hefur verið að fækka meira eða minna í tvo áratugi. Viðvarandi lélegur varpárangur hefur mismikil áhrif á tegundir og fara þau að verulegu leyti eftir lífslíkum (langlífi) fullorðinna fugla. Vísbendingar eru síðustu ár um miklar breytingar á lífríki fjarðarins sem hugsanlega tengjast loftlagsbreytingum. Rannsóknum á flóknu samspili lífríkis sjávar og sjófugla á Breiðafirði er raunar mjög ábótavant.