Íslenskt landslag, lýsing þess og flokkun eftir sjónrænum eiginleikum

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 25. febrúar 2013 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.

Það eru Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands og Þorvarður Árnason, doktor í þverfaglegum umhverfisfræðum og forstöðumaður Rannsóknaseturs H.Í. á Hornafirði, sem flytja erindi sem þau nefna Íslenskt landslag, lýsing þess og flokkun eftir sjónrænum eiginleikum.

20140108134408257167

Ágrip af erindi

„Íslenskt landslag er í senn fjölbreytt og óvenjulegt og færa má rök að því að sérstaða íslenskrar náttúru felist einna mest í sjónrænum eiginleikum landslagsins. Af ýmsum ástæðum er erfitt að skilgreina landslag og ólíkt öðrum megindráttum náttúrufars hefur ekki þróast ein almennt viðtekin aðferðafræði til greiningar eða flokkunar á því meðal fræðimanna. Nokkrar aðferðir hafa verið þróaðar í Evrópu en flestar byggjast þær á landnýtingu og gróðurfari og henta ekki vel fyrir íslenskt landslag. Meðan ekki eru til haldbærar aðferðir við að meta landslag og bera saman svæði með samræmdri aðferðafræði er hætt við að það hafi minna vægi en aðrir þættir t.d. í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, við mat á verndargildi náttúru og við ákvarðanir um landnýtingu og skipulag.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá Íslenska landslagsverkefninu en markmið þess var tvíþætt: 1) að þróa aðferðir til að lýsa og flokka landslag eftir eðlisrænum og sjónrænum eiginleikum og 2) að nota þessa aðferð á stórt úrtak svæða til að fá fram grófa en heildstæða flokkun fyrir allt Ísland. Alls hefur nú verið safnað gögnum frá hátt í 200 svæðum. Ríflega 20 ólíkar breytur eru metnar, meðal annars um grunnlögun landsins, víðsýni, línur, form, mynstur og áferð í landi og breytileiki í hæð. Fjölgreiniaðferðir voru notaðar til að greina meginflokka íslensks landslags en þeir eru 11 samkvæmt niðurstöðum verkefnisins.

Kosturinn við að nota þessa nálgun er m.a. að hægt er að sjá hvaða eiginleikar skilja á milli flokka og hvaða landslagsflokkar eru líkastir og hverjir mjög ólíkir og þar með að fá mat á svæði sem eiga sér fáar hliðstæður í landslagi. Íslenska landslagsverkefnið var unnið í tengslum við Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.“

Þóra Ellen Þórhallsdóttir (f. 1954) er prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands. Hún var í verkefnisstjórn 1. og 2. áfanga rammaáætlunar og formaður faghóps I um náttúru og menningarminjar. Þóra Ellen sat í nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga og sem jafnframt samdi Hvítbók um náttúruvernd. Núverandi rannsóknir hennar á sviði plöntuvistfræði beinast m.a. að þróun ungra vistkerfa við rætur Vatnajökuls og áhrif umhverfis á blómgunartíma plantna. Þóra Ellen hefur einnig stundað rannsóknir á íslensku landslagi.

Þorvarður Árnason (f. 1960) er doktor í þverfaglegum umhverfisfræðum frá Tema-stofnuninni við háskólanum í Linköping í Svíþjóð. Hann hefur frá 2006 starfað sem forstöðumaður Rannsóknaseturs H.Í. á Hornafirði, en vann áður í um áratug hjá Siðfræðistofnun H.Í. Þorvarður starfaði enn fremur um þriggja ára skeið sem framkvæmdastjóri Vísindasiðanefndar. Hann hefur kennt margvísleg námskeið við Háskóla Íslands, m.a. um náttúrusiðfræði og um stjórnun friðlýstra svæða, og einnig leiðbeint töluverðum fjölda framhaldsnema, þ. á m. í verkefnum sem fjalla um landslag.

Hlynur Bárðarson (f. 1982) er nú í doktorsnámi við Háskóla Íslands en vann meistaraverkefni sitt um flokkun íslensks landslags undir leiðsögn Þóru Ellenar og Þorvarðar.