Greinasafn eftir: bryndism

Nýr Náttúrufræðingur kominn út

Þá er 1.-2. hefti Náttúrufræðingsins, 89. árgangs, komið í hendur félagsmanna. Þar má m.a. lesa um Berghlaupið í Öskju 2014, um sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna. Auk þess má nefna heimsókn í furðukames Errols Fuller sem geymir tvö geirfuglsegg í skúffum heima hjá sér! Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Leiðara blaðsins skrifar Kristín Svavarsdóttir plöntuvistfræðingur.

Í blaðinu má einnig finna skýrslu stjórnar og reikninga.

NFR_2019_1-2-Forsíða

Fræðsluganga í Hrútagjá

Mánudaginn 20. maí stendur Hið Íslenska Náttúrufræðifélag fyrir fræðslugöngu inn í Reykjanesfólkvang. Farið verður að Hrútagjá sem er nyrst í fólkvanginum, rétt sunnan við Fjallið eina. Þarna er stórkostlegt landslag og upplifunin er eins og að vera á hálendinu. Áherslan verður á jarðfræði staðarins og mun Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, leiða gönguna. Í för verða líka líffræðingar, m.a. Bryndís Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur. Við bjóðum upp á það að hittast kl. 18.30 á bílaplani Fjarðarkaups þar sem við getum sameinast í bíla og orðið samferða, en aðeins tekur um 15 mín að keyra að staðnum. Þeir sem rata að Hrútagjá og velja að fara sjálfir hitta okkur þar kl. 19. (Afleggjarinn að Vígdísarvöllum er tekinn og keyrt í ca 1 km að skilti sem á stendur Hrútagjá.). Klæðið ykkur eftir veðri og verið í góðum gönguskóm. Gangan er ekki erfið. Miðað er við að hún taki um 2 klst. Gott að hafa heitt á brúsa með sér. Ferðin er ókeypis.

Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautslandinu

Hafdís Hanna Ægisdóttir flytur næsta fræðsluerindi HÍN sem fer fram í fyrirlestrarsal Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Við vekjum athygli á því að brugðið er út af hefðbundinni tímasetningu og verður erindið miðvikudagskvöldið 8. maí kl.20. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Að loknu erindi verður boðið upp á spjall og hressingu fyrir utan fyrirlestrarsalinn.

Suðurskautslandið er framandi og heillandi heimur. Þessi kaldasta, vindasamasta og þurrasta heimsálfa jarðar hefur yfir sér ævintýrablæ landkönnuða og ofurhuga enda hefur ekkert fólk varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og engar heimildir eða ummerki eru um að þar hafi verið byggð. Þrátt fyrir einangrun og fjarlægð frá iðnvæddum heimi, eru ummerki um loftslagsbreytingar þar greinileg. Í erindinu verður fjallað um nýlega ferð til Suðurskautslandsins á vegum alþjóðlegs leiðtogaprógrams fyrir vísindakonur. Fjallað verður um ferðalagið, lífríkið, áhrif loftlagsbreytinga á heimsálfuna og þann lærdóm sem dreginn var af ferðalaginu.

Hafdís Hanna Ægisdóttir lauk BS og MS námi í líffræði við Háskóla Íslands og doktorsnámi í plöntuvistfræði frá háskólanum í Basel í Sviss. Síðastliðinn áratug hefur hún starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum til að takast á við landeyðingu og endurheimta vistkerfi. Árið 2017 var Hafdís Hanna fyrsti Íslendingurinn til að fá inngöngu í alþjóðlegt leiðtogaprógram, Homeward Bound, sem hefur það að markmiði að þjálfa konur með vísindabakgrunn í leiðtogahæfni, stefnumótun og vísindamiðlun sér í lagi í tengslum við loftslagsmálin. Leiðtogaprógramminu lauk með mánaðarferðalagi 80 vísindakvenna til Suðurskautslandsins í byrjun árs 2019.

 

Staða þekkingar um fiskeldi í sjó – Málstofa

Fræðslufundur HÍN, mánudaginn 25. mars 2019 verður í formi málstofu og hefst fundurinn kl. 17.15. Málstofan fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Umræðuefnið er fiskeldi í sjó og markmiðið er að kynna  stöðu þekkingar um hugsanleg áhrif fiskeldis á umhverfið. Til fundarins munu koma vísindamenn á sviði líffræði og hafefnafræði með  víðtæka þekkingu, bæði sem fyrirlesarar, fulltrúar á pallborði og sem sérfræðingar í sal. Ekki er leitað eftir afstöðu fræðimanna til málaflokksins heldur er fyrst og fremst boðið upp á upplýsingar, fróðleik og tækifæri til umræðna.

Flutt verða þrjú stutt kynningarerindi en síðan verða umræður á pallborði og úr sal.   Málstofan tekur tvær klukkustundir í heildina. Þetta verður því knappur en fyrst og fremst upplýsandi og spennandi fræðslufundur.

Erindi

  • Leó Alexander Guðmundsson, erfðafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
  • Sólveig Rósa Ólafsdóttir, hafefnafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
  • Árni Kristmundsson, sníkjudýrasérfræðingur á Keldum.

Á pallborði munu sitja:

    • Þorleifur Eiríksson, RORUM
    • Rakel Guðmundsdóttir, Hafrannsóknastofnun
    • Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, Fræðasetur Háskóla Íslands, Vestfjörðum
    • Skúli Skúlason, Háskólinn á Hólum
    • Stefán Óli Steingrímsson, Háskólinn á Hólum
    • Erna Karen Óskarsdóttir, Mast

Fundarstjóri er Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Boðið verður upp á léttar veitingar að loknum fundi.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Stjórn HÍN