Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðslufundir

Aðalfundur HÍN og Flóra Íslands

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 25. febrúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar verður bókin Flóra Íslands kynnt.  Hún kom út núna fyrir jólin og eru höfundar Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir.  Erindið flytja þau Þóra og Jón Baldur og hefst það kl. 17:15.  Allir eru velkomnir eins og á önnur fræðsluerindi félagsins.
Aðalfundarstörf hefjast að því loknu, kl. 18:15.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:

  • Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
  • Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
  • Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
  • Önnur mál.

Stjórn HÍN skipa nú eftirtaldir: Ester Rut Unnsteinsdóttir formaður, Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður, Margrét Hugadóttir ritari, Steinþór Níelsson gjaldkeri, Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir fræðslustjóri, Jóhann Þórsson félagsvörður og Bryndís Marteinsdóttir meðstjórnandi.

Almennir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn sem og formaður.  Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna er nú á enda og er nú kosið um þessi embætti.  Þetta eru embætti Hrefnu Sigurjónsdóttur, Bryndísar Marteinsdóttur og Margrétar Hugadóttur. Auk þeirra þá hafa Steinþór og Sveinborg óskað eftir að láta af stjórnarmennsku.

 

Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. janúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er stjarneðlisfræðingurinn Kári Helgason sem flytjur erindi sem hann nefnir Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins.

Ágrip af erindi Kára, haldið mánudaginn 28. janúar 2019.

„Eftir að fyrstu sólstjörnurnar hófu að myndast byrjaði ljós að safnast fyrir í myrkum alheimi. Bakgrunnsljós alheimsins er uppsöfnuð birta allra þeirra stjarna sem skinið hafa í alheimssögunni og hefur því að geyma mikilvægar upplýsingar um myndun og þróun vetrarbrauta frá upphafi til dagsins í dag. Kári mun fjalla um nýlega rannsókn sína á bakgrunnsljósinu sem mælt var af mikilli nákvæmni með hjálp 740 risasvarthola í órafjarlægð. Útfrá þessum mælingum tókst að endurskapa sögu stjörnumyndunar yfir tímabil sem nær yfir 90% af sögu alheimsins.“

Kári er fæddur í Reykjavík árið 1983 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2003. Hann stundaði nám í eðlisfræði við Haskóla Íslands 2004-2008 og sökkti sér í stjönufræði við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 2006-2007. Hann hélt þvínæst til Bandaríkjanna í framhaldsnám og lauk MS-prófi í stjarnvísindum frá Háskólanum í Maryland árið 2011 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Doktorsverkefni sitt vann Kári í NASA Goddard Space Flight Center og hlaut til þess NASA Earth & Space Sciences-styrk. Fyrir doktorsverkefnið fékk hann viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknarverkefni. Árið 2014 hóf Kári störf hjá stjarneðlisfræðistofnun Max Planck í Þýskalandi sem Marie Curie-styrkþegi og stundaði þar rannsóknir í fjögur ár. Hann fluttist til Íslands árið 2018 þar sem hann gegnir stöðu sérfræðings við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

Vatnið í náttúru Íslands

Fræðsludagsskrá vetrarins er loksins að hefjast eftir smá hlé en Náttúruminjasafn Íslands býður félagsmönnum HÍN á sýningu safnsins í Perlunni fimmtudaginn 6. desember kl. 17.  Starfsfólk Náttúruminjasafnsins tekur á móti félagsmönnum og leiðir þá um sýninguna.
Að lokinni leiðsögn verða léttar veitingar í boði á efstu hæð Perlunnar.

Vinsamlegast skráið þátttöku hér.

 

 

CarbFix: Steinrenning koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í basalti

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. mars 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er jarðfræðingurinn Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir CarbFix: Steinrenning koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í basalti.

Ágrip af erindi Söndru, haldið mánudaginn 26. mars 2018.

„Frá árinu 2012 hefur koldíoxíði og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun verið dælt niður í basaltlög þar sem þessi jarðhitagös hvarfast við bergið og mynda steindir. Þessar niðurdælingartilraunir sem nú eru hluti af almennum rekstri virkjunarinnar hafa verið þróaðar af hópi vísindamanna frá Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og erlendum vísindastofnunum í samvinnu við innlenda verk- og tæknifræðinga og iðnaðarmenn undir merkjum CarbFix verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að herma náttúruleg ferli við bindingu koldíoxíðs, sem er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar, og brennisteinsvetnis sem hefur áhrif í nærumhverfi virkjunarinnar, á öruggasta mögulega hátt – með því að steinrenna gösin djúpt í berglögum.

Gösin eru leyst í vatni áður en þeim er dælt niður í berggrunninn, en þar sem gasmettaða niðurdælingarvatnið er þyngra en vatnið sem fyrir er í berggrunninum leitar það niður frekar en að rísa aftur til yfirborðs. Niðurdælingarvatnið hefur fremur lágt pH-gildi (~4) sem verður til þess að það leysir jónir úr basaltinu sem ganga í efnasamband við gösin og mynda steindir – karbónatsteindir úr koldíoxíðinu og súlfíðsteindir úr brennisteinsvetninu.

Niðurstöður tilraunaniðurdælinga á Hellisheiði sem birtar voru í Science árið 2016 sýna fram á að koldíoxíð binst í steindum í basalti á innan við tveimur árum, sem er mun hraðar en áður var talið. Niðurstöðurnar benda jafnframt til þess að brennisteinsvetni bindist enn hraðar, eða á aðeins nokkrum mánuðum. Árangur hreinsunar og niðurdælingar á koldíoxíði og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun er umtalsverður og hefur vaxíð árlega frá því að niðurdæling hófst. Árið 2017 var um þriðjungi koldíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun dælt niður í basaltlög á svæðinu, eða um 10,000 tonnum, og tæpum 70% brennisteinsvetnis, eða um 5,000 tonnum.“

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir er jarðfræðingur hjá þróunarsviði Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur unnið við CarbFix verkefnið síðan 2012, en doktorsverkefni hennar sem hún varði á síðasta ári snéri að bindimöguleikum koldíoxíðs í basalti. Hún vinnur nú með CarbFix-hópnum að því að þróa aðferðina enn frekar, með sérstaka áherslu á tilraunir á bindingu koldíoxíðs í basalti á hafssvæðum þar sem sjór gæti nýst til niðurdælinga.