Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðslufundir

Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautslandinu

Hafdís Hanna Ægisdóttir flytur næsta fræðsluerindi HÍN sem fer fram í fyrirlestrarsal Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Við vekjum athygli á því að brugðið er út af hefðbundinni tímasetningu og verður erindið miðvikudagskvöldið 8. maí kl.20. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Að loknu erindi verður boðið upp á spjall og hressingu fyrir utan fyrirlestrarsalinn.

Suðurskautslandið er framandi og heillandi heimur. Þessi kaldasta, vindasamasta og þurrasta heimsálfa jarðar hefur yfir sér ævintýrablæ landkönnuða og ofurhuga enda hefur ekkert fólk varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og engar heimildir eða ummerki eru um að þar hafi verið byggð. Þrátt fyrir einangrun og fjarlægð frá iðnvæddum heimi, eru ummerki um loftslagsbreytingar þar greinileg. Í erindinu verður fjallað um nýlega ferð til Suðurskautslandsins á vegum alþjóðlegs leiðtogaprógrams fyrir vísindakonur. Fjallað verður um ferðalagið, lífríkið, áhrif loftlagsbreytinga á heimsálfuna og þann lærdóm sem dreginn var af ferðalaginu.

Hafdís Hanna Ægisdóttir lauk BS og MS námi í líffræði við Háskóla Íslands og doktorsnámi í plöntuvistfræði frá háskólanum í Basel í Sviss. Síðastliðinn áratug hefur hún starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum til að takast á við landeyðingu og endurheimta vistkerfi. Árið 2017 var Hafdís Hanna fyrsti Íslendingurinn til að fá inngöngu í alþjóðlegt leiðtogaprógram, Homeward Bound, sem hefur það að markmiði að þjálfa konur með vísindabakgrunn í leiðtogahæfni, stefnumótun og vísindamiðlun sér í lagi í tengslum við loftslagsmálin. Leiðtogaprógramminu lauk með mánaðarferðalagi 80 vísindakvenna til Suðurskautslandsins í byrjun árs 2019.

 

Staða þekkingar um fiskeldi í sjó – Málstofa

Fræðslufundur HÍN, mánudaginn 25. mars 2019 verður í formi málstofu og hefst fundurinn kl. 17.15. Málstofan fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Umræðuefnið er fiskeldi í sjó og markmiðið er að kynna  stöðu þekkingar um hugsanleg áhrif fiskeldis á umhverfið. Til fundarins munu koma vísindamenn á sviði líffræði og hafefnafræði með  víðtæka þekkingu, bæði sem fyrirlesarar, fulltrúar á pallborði og sem sérfræðingar í sal. Ekki er leitað eftir afstöðu fræðimanna til málaflokksins heldur er fyrst og fremst boðið upp á upplýsingar, fróðleik og tækifæri til umræðna.

Flutt verða þrjú stutt kynningarerindi en síðan verða umræður á pallborði og úr sal.   Málstofan tekur tvær klukkustundir í heildina. Þetta verður því knappur en fyrst og fremst upplýsandi og spennandi fræðslufundur.

Erindi

  • Leó Alexander Guðmundsson, erfðafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
  • Sólveig Rósa Ólafsdóttir, hafefnafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
  • Árni Kristmundsson, sníkjudýrasérfræðingur á Keldum.

Á pallborði munu sitja:

    • Þorleifur Eiríksson, RORUM
    • Rakel Guðmundsdóttir, Hafrannsóknastofnun
    • Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, Fræðasetur Háskóla Íslands, Vestfjörðum
    • Skúli Skúlason, Háskólinn á Hólum
    • Stefán Óli Steingrímsson, Háskólinn á Hólum
    • Erna Karen Óskarsdóttir, Mast

Fundarstjóri er Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands.

Boðið verður upp á léttar veitingar að loknum fundi.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Stjórn HÍN

Aðalfundur HÍN og Flóra Íslands

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 25. febrúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar verður bókin Flóra Íslands kynnt.  Hún kom út núna fyrir jólin og eru höfundar Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir.  Erindið flytja þau Þóra og Jón Baldur og hefst það kl. 17:15.  Allir eru velkomnir eins og á önnur fræðsluerindi félagsins.
Aðalfundarstörf hefjast að því loknu, kl. 18:15.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:

  • Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
  • Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
  • Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
  • Önnur mál.

Stjórn HÍN skipa nú eftirtaldir: Ester Rut Unnsteinsdóttir formaður, Hrefna Sigurjónsdóttir varaformaður, Margrét Hugadóttir ritari, Steinþór Níelsson gjaldkeri, Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir fræðslustjóri, Jóhann Þórsson félagsvörður og Bryndís Marteinsdóttir meðstjórnandi.

Almennir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn sem og formaður.  Kjörtímabil þriggja stjórnarmanna er nú á enda og er nú kosið um þessi embætti.  Þetta eru embætti Hrefnu Sigurjónsdóttur, Bryndísar Marteinsdóttur og Margrétar Hugadóttur. Auk þeirra þá hafa Steinþór og Sveinborg óskað eftir að láta af stjórnarmennsku.

 

Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 28. janúar 2019 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er stjarneðlisfræðingurinn Kári Helgason sem flytjur erindi sem hann nefnir Saga stjörnumyndunar skrásett í bakgrunnsljós alheimsins.

Ágrip af erindi Kára, haldið mánudaginn 28. janúar 2019.

„Eftir að fyrstu sólstjörnurnar hófu að myndast byrjaði ljós að safnast fyrir í myrkum alheimi. Bakgrunnsljós alheimsins er uppsöfnuð birta allra þeirra stjarna sem skinið hafa í alheimssögunni og hefur því að geyma mikilvægar upplýsingar um myndun og þróun vetrarbrauta frá upphafi til dagsins í dag. Kári mun fjalla um nýlega rannsókn sína á bakgrunnsljósinu sem mælt var af mikilli nákvæmni með hjálp 740 risasvarthola í órafjarlægð. Útfrá þessum mælingum tókst að endurskapa sögu stjörnumyndunar yfir tímabil sem nær yfir 90% af sögu alheimsins.“

Kári er fæddur í Reykjavík árið 1983 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2003. Hann stundaði nám í eðlisfræði við Haskóla Íslands 2004-2008 og sökkti sér í stjönufræði við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 2006-2007. Hann hélt þvínæst til Bandaríkjanna í framhaldsnám og lauk MS-prófi í stjarnvísindum frá Háskólanum í Maryland árið 2011 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2014. Doktorsverkefni sitt vann Kári í NASA Goddard Space Flight Center og hlaut til þess NASA Earth & Space Sciences-styrk. Fyrir doktorsverkefnið fékk hann viðurkenningu fyrir framúrskarandi rannsóknarverkefni. Árið 2014 hóf Kári störf hjá stjarneðlisfræðistofnun Max Planck í Þýskalandi sem Marie Curie-styrkþegi og stundaði þar rannsóknir í fjögur ár. Hann fluttist til Íslands árið 2018 þar sem hann gegnir stöðu sérfræðings við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.