Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðslufundir

Vatnið í náttúru Íslands

Fræðsludagsskrá vetrarins er loksins að hefjast eftir smá hlé en Náttúruminjasafn Íslands býður félagsmönnum HÍN á sýningu safnsins í Perlunni fimmtudaginn 6. desember kl. 17.  Starfsfólk Náttúruminjasafnsins tekur á móti félagsmönnum og leiðir þá um sýninguna.
Að lokinni leiðsögn verða léttar veitingar í boði á efstu hæð Perlunnar.

Vinsamlegast skráið þátttöku hér.

 

 

CarbFix: Steinrenning koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í basalti

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. mars 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er jarðfræðingurinn Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir CarbFix: Steinrenning koldíoxíðs og brennisteinsvetnis í basalti.

Ágrip af erindi Söndru, haldið mánudaginn 26. mars 2018.

„Frá árinu 2012 hefur koldíoxíði og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun verið dælt niður í basaltlög þar sem þessi jarðhitagös hvarfast við bergið og mynda steindir. Þessar niðurdælingartilraunir sem nú eru hluti af almennum rekstri virkjunarinnar hafa verið þróaðar af hópi vísindamanna frá Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og erlendum vísindastofnunum í samvinnu við innlenda verk- og tæknifræðinga og iðnaðarmenn undir merkjum CarbFix verkefnisins.

Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að herma náttúruleg ferli við bindingu koldíoxíðs, sem er einn helsti orsakavaldur hnattrænnar hlýnunar, og brennisteinsvetnis sem hefur áhrif í nærumhverfi virkjunarinnar, á öruggasta mögulega hátt – með því að steinrenna gösin djúpt í berglögum.

Gösin eru leyst í vatni áður en þeim er dælt niður í berggrunninn, en þar sem gasmettaða niðurdælingarvatnið er þyngra en vatnið sem fyrir er í berggrunninum leitar það niður frekar en að rísa aftur til yfirborðs. Niðurdælingarvatnið hefur fremur lágt pH-gildi (~4) sem verður til þess að það leysir jónir úr basaltinu sem ganga í efnasamband við gösin og mynda steindir – karbónatsteindir úr koldíoxíðinu og súlfíðsteindir úr brennisteinsvetninu.

Niðurstöður tilraunaniðurdælinga á Hellisheiði sem birtar voru í Science árið 2016 sýna fram á að koldíoxíð binst í steindum í basalti á innan við tveimur árum, sem er mun hraðar en áður var talið. Niðurstöðurnar benda jafnframt til þess að brennisteinsvetni bindist enn hraðar, eða á aðeins nokkrum mánuðum. Árangur hreinsunar og niðurdælingar á koldíoxíði og brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun er umtalsverður og hefur vaxíð árlega frá því að niðurdæling hófst. Árið 2017 var um þriðjungi koldíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun dælt niður í basaltlög á svæðinu, eða um 10,000 tonnum, og tæpum 70% brennisteinsvetnis, eða um 5,000 tonnum.“

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir er jarðfræðingur hjá þróunarsviði Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur unnið við CarbFix verkefnið síðan 2012, en doktorsverkefni hennar sem hún varði á síðasta ári snéri að bindimöguleikum koldíoxíðs í basalti. Hún vinnur nú með CarbFix-hópnum að því að þróa aðferðina enn frekar, með sérstaka áherslu á tilraunir á bindingu koldíoxíðs í basalti á hafssvæðum þar sem sjór gæti nýst til niðurdælinga.

Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. febrúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er líffræðingurinn Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir „Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum“.

Ágrip af erindi Guðbjargar Ástu, haldið mánudaginn 26. febrúar 2018.

„Við fornleifauppgröft á fornum íslenskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorskbein. Í mörgum tilfellum eru elstu mannvistarlög verstöðvanna aldursgreind til fyrstu alda eftir landnám. Á síðustu fimm árum hafa sérfræðingar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna, stundað þverfræðilegar rannsóknir á þessum beinum og öðrum fornleifafræðilegum efnivið frá verstöðvunum. Markmið rannsóknanna er að kortleggja breytileika í þorskstofninum og reyna að meta hvort loftslagsbreytingar og/eða veiðiálag hafi hvatað mögulegar breytingar á þorskinum á sögulegum tíma. Líffræðilegar rannsóknir á fornleifafræðilegum efnivið gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma.

Í þessum fyrirlestri mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir draga saman þær vistfræðilegu niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr verkefninu, t.d. greiningar á erfðasamsetningu, metla á fæðuvist með stöðugum efnasamsætum og rannsóknir á þorskkvörnum til að meta aldur, vöxt og tíðni vistgerða, þ.e. far- og staðbundinna þorska. Niðurstöðurnar benda til þess að breytingar hafi orðið á vistfræðilegum þáttum þorskstofnsins á tveimur tímabilum, annarsvegar á „litlu ísöld“, en það var líka tímabil mikillar aukningar í veiðiálagi, og í nútíma. Að lokum mun Guðbjörg Ásta setja niðurstöður um fornvistfræði þorsksins í  samhengi við þorskveiðar Íslendinga, þróun verstöðva og upphaf fiskveiðisamfélagsins.“

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir er líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Guðbjörg Ásta lauk PhD námi frá Háskólanum í St Andrews í Skotlandi árið 2005 og hefur síðan stundað rannsóknir á tilurð og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðustu árum hafa rannsóknir Guðbjargar Ástu í auknum mæli beinst að kortlagningu og áhrifum á líffræðilegan breytileika nytjastofna sjávar; í því augnamiði að auka þekkingu til viðhalds og verndunar stofnanna.

Hlýnun Þingvallavatns og hitaferlar í vatninu.

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 29. janúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er líffræðingurinn Hilmar J. Malmquist vistfræðingurinn sem flytjur erindi sem hann nefnir Hlýnun Þingvallavatns og hitaferlar í vatninu.

Ágrip af erindi Hilmars, haldið mánudaginn 26. janúar 2018.

„Fjallað er um langtímamælingar á vatnshita í útfalli Þingvallavatns frá upphafi reglulegra mælinga á vegum Landsvirkjunar árið 1962 og fram til 2017 og þær mæliniðurstöður athugaðar í tengslum við veðurfarsbreytur á vatnasviðinu. Einnig er spáð í langtímaþróun ísalagna í vatninu og gerð grein fyrir vatnshitamælingum úti í vatnsbol Þingvallavatns sem hófust árið 2007 og varpa ljósi á lóðrétta hitaferla í vatninu.

Rannsóknirnar staðfesta að Þingvallavatn hefur hlýnað umtalsvert á síðastliðnum 30 árum eða svo, frá lokum kuldaskeiðs sem varði milli 1965 og 1985‒86, og fellur hlýnun vatnsins vel að þróun hækkandi lofthita á vatnasviðinu. Ársmeðalhiti í vatninu hefur hækkað að jafnaði um 0,15°C á áratug sem sem er á svipuðu róli og í öðrum stórum, djúpum vötnum á norðlægum slóðum. Mest er hlýnunin að sumri til (júní‒ágúst) með 1,3–1,6°C hækkun á meðalhita mánaðar á árabilinu 1962–2016. Fast á hælana fylgja haust- og vetrarmánuðirnir (september‒janúar) með hækkun á meðalhita mánaðar á bilinu 0,7–1,1°C. Vegna hlýnunarinnar leggur Þingvallavatn bæði sjaldnar og seinna en áður og ís brotnar fyrr upp. Hlýnun vatnsins virðist einnig hafa eflt hitaskil og lagskiptingu úti í vatnsbolnum.

Spáð er í afleiðingar hlýnunarinnar fyrir lífríki vatnsins sem sumar hverjar virðast þegar vera mælanlegar, t.a.m. aukin frumframleiðsla, og sverja þær sig í ætt við breytingar í vistkerfum í vötnum annars staðar á norðurslóð. Þá hafa fordæmalausar breytingar átt sér stað nýlega í svifþörungaflóru vatnsins m.t.t. tegundasamsetningar og vaxtarferils á ársgrunni og kunna þær breytingar að stafa af samverkandi áhrifum hlýnunar og aukinnar ákomu næringarefna í vatnið.“

Dr. Hilmar J. Malmquist er líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hilmar hefur um áratugaskeið sinnt margvíslegum vatnalíffræðirannsóknum, þ. á m. vöktunarrannsóknum í Þingvallavatni. Hilmar lauk sveinsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1983, meistaraprófi í vatnavistfræði frá Hafnarháskóla 1985 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla 1992.