Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðslufundir

Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 26. febrúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er líffræðingurinn Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir „Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum“.

Ágrip af erindi Guðbjargar Ástu, haldið mánudaginn 26. febrúar 2018.

„Við fornleifauppgröft á fornum íslenskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorskbein. Í mörgum tilfellum eru elstu mannvistarlög verstöðvanna aldursgreind til fyrstu alda eftir landnám. Á síðustu fimm árum hafa sérfræðingar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum, í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna, stundað þverfræðilegar rannsóknir á þessum beinum og öðrum fornleifafræðilegum efnivið frá verstöðvunum. Markmið rannsóknanna er að kortleggja breytileika í þorskstofninum og reyna að meta hvort loftslagsbreytingar og/eða veiðiálag hafi hvatað mögulegar breytingar á þorskinum á sögulegum tíma. Líffræðilegar rannsóknir á fornleifafræðilegum efnivið gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma.

Í þessum fyrirlestri mun Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir draga saman þær vistfræðilegu niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr verkefninu, t.d. greiningar á erfðasamsetningu, metla á fæðuvist með stöðugum efnasamsætum og rannsóknir á þorskkvörnum til að meta aldur, vöxt og tíðni vistgerða, þ.e. far- og staðbundinna þorska. Niðurstöðurnar benda til þess að breytingar hafi orðið á vistfræðilegum þáttum þorskstofnsins á tveimur tímabilum, annarsvegar á „litlu ísöld“, en það var líka tímabil mikillar aukningar í veiðiálagi, og í nútíma. Að lokum mun Guðbjörg Ásta setja niðurstöður um fornvistfræði þorsksins í  samhengi við þorskveiðar Íslendinga, þróun verstöðva og upphaf fiskveiðisamfélagsins.“

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir er líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Guðbjörg Ásta lauk PhD námi frá Háskólanum í St Andrews í Skotlandi árið 2005 og hefur síðan stundað rannsóknir á tilurð og viðhaldi líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðustu árum hafa rannsóknir Guðbjargar Ástu í auknum mæli beinst að kortlagningu og áhrifum á líffræðilegan breytileika nytjastofna sjávar; í því augnamiði að auka þekkingu til viðhalds og verndunar stofnanna.

Hlýnun Þingvallavatns og hitaferlar í vatninu.

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 29. janúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er líffræðingurinn Hilmar J. Malmquist vistfræðingurinn sem flytjur erindi sem hann nefnir Hlýnun Þingvallavatns og hitaferlar í vatninu.

Ágrip af erindi Hilmars, haldið mánudaginn 26. janúar 2018.

„Fjallað er um langtímamælingar á vatnshita í útfalli Þingvallavatns frá upphafi reglulegra mælinga á vegum Landsvirkjunar árið 1962 og fram til 2017 og þær mæliniðurstöður athugaðar í tengslum við veðurfarsbreytur á vatnasviðinu. Einnig er spáð í langtímaþróun ísalagna í vatninu og gerð grein fyrir vatnshitamælingum úti í vatnsbol Þingvallavatns sem hófust árið 2007 og varpa ljósi á lóðrétta hitaferla í vatninu.

Rannsóknirnar staðfesta að Þingvallavatn hefur hlýnað umtalsvert á síðastliðnum 30 árum eða svo, frá lokum kuldaskeiðs sem varði milli 1965 og 1985‒86, og fellur hlýnun vatnsins vel að þróun hækkandi lofthita á vatnasviðinu. Ársmeðalhiti í vatninu hefur hækkað að jafnaði um 0,15°C á áratug sem sem er á svipuðu róli og í öðrum stórum, djúpum vötnum á norðlægum slóðum. Mest er hlýnunin að sumri til (júní‒ágúst) með 1,3–1,6°C hækkun á meðalhita mánaðar á árabilinu 1962–2016. Fast á hælana fylgja haust- og vetrarmánuðirnir (september‒janúar) með hækkun á meðalhita mánaðar á bilinu 0,7–1,1°C. Vegna hlýnunarinnar leggur Þingvallavatn bæði sjaldnar og seinna en áður og ís brotnar fyrr upp. Hlýnun vatnsins virðist einnig hafa eflt hitaskil og lagskiptingu úti í vatnsbolnum.

Spáð er í afleiðingar hlýnunarinnar fyrir lífríki vatnsins sem sumar hverjar virðast þegar vera mælanlegar, t.a.m. aukin frumframleiðsla, og sverja þær sig í ætt við breytingar í vistkerfum í vötnum annars staðar á norðurslóð. Þá hafa fordæmalausar breytingar átt sér stað nýlega í svifþörungaflóru vatnsins m.t.t. tegundasamsetningar og vaxtarferils á ársgrunni og kunna þær breytingar að stafa af samverkandi áhrifum hlýnunar og aukinnar ákomu næringarefna í vatnið.“

Dr. Hilmar J. Malmquist er líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hilmar hefur um áratugaskeið sinnt margvíslegum vatnalíffræðirannsóknum, þ. á m. vöktunarrannsóknum í Þingvallavatni. Hilmar lauk sveinsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1983, meistaraprófi í vatnavistfræði frá Hafnarháskóla 1985 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla 1992.

Milli borgarsvæða Írlands og heimskautasvæða Norður Kanada: Rannsóknir á lífi margæsa

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. nóvember 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er vistfræðingurinn Freydís Vigfúsdóttir sem flytjur erindi sem hún nefnir Milli borgarsvæða Írlands og heimskautasvæða Norður Kanada: Rannsóknir á lífi margæsa

Ágrip af erindi Freydísar, haldið mánudaginn 27.nóvember 2017.

„Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknir á margæsum en margæsir sem eru fargestir á Íslandi og vetra sig á Írlandi, verpa á Heimskautasvæðum Norður Kanada og eru varpsvæði þeirra ein þau norðlægustu sem þekkjast meðal fuglategunda. Ísland gegnir mikilvægu hlutverki sem viðkomustaður en gæsirnar þurfa að safna nægum forða hérlendis bæði til eggjamyndunar sem og til að knýja hið 3000 km langa farflug, þvert yfir Grænlandsjökul, á varpstöðvarnar á 80´N á Ellesmere-eyju og svæðunum í kring. Talningar benda til þess að þessi tiltekni stofn (aðeins rúmlega 30.000 fuglar) hafi allur viðdvöl hér á landi og um fjórðungur þess fari um Suð-Vestur horn Íslands.

Markmið verkefnisins er m.a. að kanna streitu í villtum dýrastofnum og takmarkandi þætti á farleið, en hér er þekktum einstaklingsmerktum fuglum fylgt á eftir alla farleiðina. Sagt verður frá aðferðum mælinga og niðurstöðum rannsóknanna sem mest hafa farið fram í Dublin á Írlandi og á Álftanesi á Íslandi. Einnig verður sagt frá leiðangri rannsóknarhópsins á heimskautasvæðin árið 2014 þar sem mælingar á varpstöð fóru fram og myndir af gróður- og dýralífi þessa einstaka og fáfarna svæðis verða sýndar.“

 

Höfundurinn Freydís Vigfúsdóttir er sérfræðingur við Háskóla Íslands. Freydís lauk BSc og MSc prófi í líffræði við Háskóla Íslands og PhD prófi frá University of East Anglia í Englandi. Freydís stundar rannsóknir í vistfræði sem lúta að álagi, atferli og hormónabúskap hánorrænna farfugla og sjávarlíffræði sem leitast við að skilja eðli og ástæður breytinga á fæðukeðjum hafsins.

Lífið í hrauninu – lífríki í vatnsfylltum hraunhellum í Mývatnssveit

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. október 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það eru líffræðingarnir Bjarni K. Kristjánsson og Camille Leblanc sem flytja erindi sem þau nefna Lífið í hrauninu – lífríki í vatnsfylltum hraunhellum í Mývatnssveit

Ágrip af erindi Bjarna og Camille, haldið mánudaginn 30. október 2017.

„Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsóknir á vatnsfylltum hraunhellum í kringum Mývatn. Slíka hella má finna á nokkrum stöðum við vatnið, en þeir eru algengastir á Haganesi (SV við vatnið) og í landi Vagnbrekku og Vindbelgs (NV við vatnið). Í fjölmörgum hellum má finna dvergbleikju, sem Mývetningar nefna gjáarlontur. Bleikjan í aðskildum hellum myndar sérstaka stofna og er einnig erfðafræðilega ólík bleikju í Mývatni. Hellastofnarnir eru litlir, 50 – 500 fullorðnir fiskar. Markmið rannsóknana er að fylgjast með bleikjustofnum í 20 hellum til að svara spurningum um þróun í litlum stofnum í náttúrunni og hvernig umhverfisþættir geti mótað hana. Verkefnið hófst árið 2012 og eru hellarnir heimsóttir í júní og ágúst. Þá eru eins margir fiskar og mögulegt er veiddir lifandi, með rafmagni og gildrum. Fiskarnir eru mældir og merktir þannig að hægt sé að þekkja aftur einstaka fiska. Auk þess hefur annað lífríki hellana verið kortlagt.

Niðurstöður sýna að í hverjum helli er einfalt samfélag smádýra. Þessi samfélög eru tengd umhverfi hellana, bæði þegar hellar eru bornir saman og þegar skoðaður er breytileiki innan þeirra. Þessi smádýr eru mikilvæg fæða bleikjunar í hellunum, en hún er einnig mjög háð utanaðkomandi fæðu (flugum), sem mest öll kemur úr Mývatni. Bleikjan er talsvert ólík í útliti milli hella, og sömuleiðis vöxtur hennar. Auk þess má sjá töluverðan breytileika í vexti milli ára og á milli þeirra meginsvæða þar sem hellana er að finna.

Niðurstöðurnar fela í sér mikilvægar nýjar upplýsingar um eðli fjölbreytni í litlum náttúrulegum stofnum og hvernig umhverfisþættir geta mótað slíka fjölbreytni. Slík þekking er mikilvæg fyrir upplýsta ákvarðanatöku varðandi verndun og nýtingu náttúrunnar.“

 

Höfundarnir Bjarni K. Kristjánsson,prófessor, og Camille Leblanc, lektor, eru sérfræðingar við Háskólann á Hólum. Bjarni lauk B.S. prófi í líffræði frá Háskóla Íslands og M.S og PhD prófum frá Háskólanum í Guelph í Kanada. Camille Leblanc lauk BS prófi frá Université de Bretagne Occidentale, MS prófi frá École normale supérieure, París og INAPG, sem báðir eru í Frakklandi og doktorsprófi frá Háskóla Íslands og Ríkisháskólanum í Oregon í Bandaríkjunum. Bjarni og Camille stunda rannsóknir á skildum fræðasviðum og leitast við að skilja eðli fjölbreytileika innan tegunda fiska og samfélaga smádýra á Íslandi.