Færslusafn fyrir flokkinn: Fréttir

Vegleg bókagjöf um náttúrufræði

Í lok árs 2018 færði Pétur M. Jónasson, 98 ára, prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla og dætur hans Margrét og Kristín Náttúruminjasafni Íslands (NMSÍ) veglega bókagjöf. Gjöfin telur um 500 titla af fræðiritum um náttúru eftir evrópska náttúrufræðinga, frá ofanverðri 17. öld og fram á 21. öldina. Mörg verkanna eru mjög fágæt og afar dýrmæt. Nánar um bókagjöfina má finna á heimasíðu NMSÍ.

Vatnið í náttúru Íslands

Fræðsludagsskrá vetrarins er loksins að hefjast eftir smá hlé en Náttúruminjasafn Íslands býður félagsmönnum HÍN á sýningu safnsins í Perlunni fimmtudaginn 6. desember kl. 17.  Starfsfólk Náttúruminjasafnsins tekur á móti félagsmönnum og leiðir þá um sýninguna.
Að lokinni leiðsögn verða léttar veitingar í boði á efstu hæð Perlunnar.

Vinsamlegast skráið þátttöku hér.

 

 

Frá aðalfundi HÍN 2018

Aðalfundur HÍN var haldinn mánudaginn 28. febrúar 2018 í Öskju, Náttúrfræðahúsi Háskóla Íslands.

Í stjórn félagsins var endurkjörinn einn stjórnarmaður sem var að ljúka öðru starfsári fyrir félagið, en það var Jóhann Þórsson líffræðingur. Þrír stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu, það voru þau Hafdís Hanna Ægisdóttir, varaformaður, Hilmar Malmquist og formaðurinn, Árni Hjartarson. Nýir stjórnarmenn voru kjörnir, Hrefna Sigurjónsdóttir ,líffræðingur, Sveinborg H. Gunnarsdóttir, jarðfræðingur og Steinþór Níelsson, jarðfræðingur. Nýr formaður félagsins var kosinn Ester Rut Unnsteinsdóttir sem áður gengdi embætti gjaldkera félagsins. Einn stjórnarmaður, Bryndís Marteinsdóttir, situr áfram næsta kjörtímabil.

Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar mun stjórnin skipta með sér verkum. Undir tenglinum Um félagið hér að ofan til vinstri má finna upplýsingar um núverandi stjórn HÍN.

Á fundinum var Þóra Ellen Þórhallsdóttir grasafræðingur og prófessor í grasafræði frá 1995, gerður að heiðursfélaga HÍN.

Aðalfundur HÍN 2018

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 26. febrúar 2018 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar flytur Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum erindi undir heitinu „Þorskur í þúsund ár: vistfræði sjávar byggð á fornum þorskbeinum“. Dagskráin hefst kl. 17:15 með erindi Guðbjargar Ástu en aðalfundarstörf hefjast að því loknu kl. 18:15. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:
– Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
– Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
– Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
– Önnur mál.

Halda áfram að lesa

Fjölþjóðarannsóknir á uppsjávarvistkerfi norðaustur Atlantshafs: tæki, tól og tilgangur

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 24. apríl 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er fiskifræðingurinn Anna Heiða Ólafsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Fjölþjóðarannsóknir á uppsjávarvistkerfi norðaustur Atlantshafs: tæki, tól og tilgangur

Ágrip af erindi Önnu, haldið mánudaginn 24. apríl 2017.

„Fiskar eiga ekki vegabréf en ferðast samt þúsundir km árlega þvert á lögsögur margra landa. Þetta á sérstaklega við um uppsjávarfiska í NA-Atlantshafi sem margir hegða sér svipað og farfuglar. Þeir ganga í norðurátt á sumrin í ætisleit og ganga svo suðureftir á haustin til vetursetu og hrygningar. Algengir uppsjávarfiskar við Ísland hafa því víðfeðma útbreiðslu sem nær norður til Svalbarða  og suður til Gíbraltar, og frá strönd meginlands Evrópu til austurstrandar Grænlands. Vegna aflaverðmætis uppsjávarfiskistofna er nauðsynlegt að mæla stofnvísitölu þeirra árlega. Það er gert með fjölþjóðarannsóknaleiðöngrum þar sem margar þjóðir og enn fleiri skip mæla viðkomandi stofn samtímis í NA-Atlantshafi. Undanfarin ár hafa þessir leiðangrar þróast í að verða vistkerfisleiðangrar, auk þess að meta magn fiska er umhverfisástand, þörungar og átumagn mælt og jafnvel hvalir taldir. Síðan 2010, hefur Hafrannsóknastofnun á hverju ári í júlí tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknaleiðangri sem kallast „International Ecosystem Summer Survey in Nordic Seas“ ásamt Norðmönnum, Færeyingum og Grænlendingum. Aðalmarkmið leiðangursins er að meta stærð makrílstofnsins en einnig er magn annarra fiskistofna metið og ýmsir aðrir þættir í vistkerfinu mældir. Sagt verður frá þróun þessa leiðangurs frá 2010 til 2017, leiðangursáætlun fyrir árið í ár og  því hvernig þau gögn sem safnað er í leiðangrinum, eru ekki einungis notuð við stofnmat heldur einnig sem efniviður í doktorsverkefni og vísindagreinar. Að lokum verður talað um frumniðurstöður rannsókna á því hvers vegna makríll byrjaði að leita inní íslenska lögsögu upp úr 2007.“

 

Dr. Anna Heiða Ólafsdóttir er fiskifræðingur á uppsjávarlífríkissvið Hafrannsóknastofnunar þar sem hún ber ábyrgð á makríl- og kolmunnarannsóknum. Anna lærði fiskifræði við Memorial Háskóla á Nýfundnalandi, Kanada, og lauk þaðan bæði masters- og doktorsprófi. Frá Kanada lá leið hennar til Færeyja þar sem hún vann á færeysku hafrannsóknastofnuninni í nokkur ár áður en hún fluttist aftur til Íslands.

 

 

 

Áhrif sauðfjárbeitar á íslensk vistkerfi – hvað vitum við í raun mikið?

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 27. mars 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er plöntuvistfræðingurinn Bryndís Marteinsdóttir sem flytur erindi sem hún nefnir Áhrif sauðfjárbeitar á íslensk vistkerfi – hvað vitum við í raun mikið?

Halda áfram að lesa

Aðalfundur HÍN 2017

Boðað er til aðalfundar Hins íslenska náttúrufræðifélags mánudaginn 27. febrúar 2017 í stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands. Fyrir dagskrá aðalfundar flytur Guðrún Larsen vísindamaður emerita við Jarðvísindastofnun Háskólans erindi sem hún kallar „Af framferði jökulhlaupa í Kötlugosum“. Erindið hefst kl. 17:15 og eru allir velkomnir eins og á önnur fræðsluerindi félagsins. Aðalfundarstörf hefjast að loknu erindi Guðrúnar, kl. 18:15.

Dagskrá aðalfundarins er eins og henni er lýst í lögum félagsins:
– Skýrsla formanns um störf stjórnar á liðnu starfsári.
– Skýrsla gjaldkera, endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til atkvæðagreiðslu.
– Kosning stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga.
– Önnur mál.

Halda áfram að lesa