Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Hlaðvarp HÍN

Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur í hyggju að hleypa af stokkunum hlaðvarpi um íslenska náttúrufræðinga.

Felagið hefur um árabil staðið fyrir fræðslu og viðburðum um náttúru Íslands enda eitt af markmiðum félagsins að efla vitund um íslenska náttúru. Á tímum Covid-19 höfum við í stjórn félagsins þurft að þreifa fyrir okkur með nýjar leiðir í fræðslu og miðlun og er fyrirhugað hlaðvarp skref í þá átt.

Hlaðvarpið ber nafnið Hinir íslensku náttúrufræðingar. Aðalmarkmið þess er að auka veg og virðingu náttúrufræðigreina og varpa ljósi á þau fjölbreyttu störf sem íslenskir náttúrufræðingar vinna, heima og erlendis. Að sjálfsögðu viljum við einnig vekja athygli á félaginu og starfsemi þess. Þannig langar okkur að laða yngra fólk aðfélaginu en um leið sýna breiddina í hópi náttúrufræðinga.

Þær Helena W Óladóttir og Hafdís Hanna Ægisdóttir eru umsjónarkonur hlaðvarpsins fyrir hönd HÍN. Helena situr í stjórn félagsins en hefur lengi starfað á vettvangi umhverfis- og menntamála og Hafdís Hanna er náttúrufræðingum að góðu kunn, m.a. fyrir þátttöku sína í leiðangri vísindakvenna á Suðurskautslandið fyrir skemmstu og störf sem forstöðumaður Landgræðsluskóla SÞ.

Helena Óladóttir, fræðslustjóri HÍN

Óskað eftir vefstjóra

Við í stjórn höfum rætt að rétt sé að koma á sérstakri nefnd sem sér um miðlun enda reynist það einfaldlega of mikið fyrir stjórnarmeðlimi að sinna öllum þessum þáttum miðlunar sem skyldi. Fyrsta skrefið í átt að þeirri hugmynd okkar er að fá félagsmann utan stjórnar til að sinna vefstjórn fyrir félagið. Þetta er ólaunað starf en upplagt að hafa inni á ferilskrá sinni enda geta allir kíkt inn á heimasíðu og gott starf viðkomandi. Vefsíðan er unnin í WordPress og mjög létt að viðhalda.

Vefstjóri myndi sjá um að viðhalda heimasíðu HÍN og halda henni lifandi. Allar meiriháttar breytingar á síðunni þarf að bera undir aðalstjórn. Mikilvægt er að síðan sé aðgengileg, aðlaðandi og auðvelt að viðhalda. Sömuleiðis er mikilvægt er að taka afrit af síðunni áður en stærri uppfærslur eða breytingar eru gerðar. Netfang vefstjóra er vefstjori@hin.is og vefstjóri þarf því líka að sjá til að svara skeytum sem kunna að berast á það netfang, jafnvel þó ekki sé um beina spurningu að ræða þá er gott að senda létt og laggott svar svo það sé augljóst að skeytið hafi verið móttekið, það kann fólk að meta. Þegar þurfa þykir eða þegar ekki hefur borist efni frá öðrum skal vefstjóri kalla eftir efni á síðuna, hvort heldur sem er frá aðalstjórn eða öðrum starfshópum innan félagsins.

Áhugasamir mega hafa samband við undirritaða á netfangið vefstjori@hin.is eða í gegnum Facebook messenger.

Fyrir hönd stjórnar,
Gróa Valgerður

Ferlaufungur Flóruvina

Fóruvinir hafa fengið sér svæði hér á heimasíðunni og þar má nú jafnframt nálgast fréttabréf Flóruvina, Ferlaufung, sem gefið var út af Herði Kristinssyni á árunum 1998-2012 en Náttúrufræðistofnun Íslands studdi við útgáfuna á sínum tíma.

Heimasíða HÍN

Heimasíða félagsins fékk örlitla andlitslyftingu nú í lok mánaðarins og það er von mín að hún sé til bóta! Ég bið gesti okkar endilega um að hafa samband ef ske kynni að eitthvað virkar ekki sem skyldi eða ef þið hnjótið um einhverjar vitleysur á síðunni. Neðst á hverri síðu á að koma fram hver ber ábyrgð á efni viðkomandi síðu en ég vonast til að finna nokkra mismunandi ábyrgðarmenn fyrir mismunandi efnisflokka – það gengur þó hægt á tíma sumarleyfa en verður vonandi búið fyrir vetrarbyrjun. Annars er það undirrituð sem hefur vefstjórahlutverkið þetta árið og því má hafa samband við mig varðandi efni tengt síðunni.

Gróa Valgerður