Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Arnþór Garðarsson jarðsunginn

Í dag verður okkar kæri Arnþór Garðarsson jarðsunginn. Arnþór var prófessor emeritus í dýrafræði við Háskóla Íslands, fyrrum formaður félagsins og heiðursfélagi. Hann lést á nýársdag, 83 ára að aldri. Arnþór var merkur fræðimaður og lagði m.a. grunn að talningu og vöktun sjófugla. Árið 2010 voru birt æviágrip Arnþórs í Náttúrufræðingnum sem hér er vísað í en þau voru rituð af Gísla Má Gíslasyni, Árna Einarssyni og Þóru Ellen Þórhallsdóttur. Félagið vottar aðstandendum Arnþórs dýpstu samúð vegna fráfalls hans.

Nýr ritstjóri Náttúrufræðingsins

Gengið hefur verið frá ráðningu í starf ritstjóra Náttúrufræðingsins sem Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands auglýstu laust til umsóknar 22. nóvember s.l. en umsóknarfrestur rann út þann 15. desember. Alls bárust sex umsóknir um starfið og var samhljóða niðurstaða beggja aðila að ráða Margréti Rósu Jochumsdóttur sem nýjan ritstjóra Náttúrufræðingsins.

Margrét hefur meistaragráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu og hefur víðtæka reynslu í útgáfu og vefumsjón auk þess sem hún stundar nú nám í umhverfis- og auðlindafræði. Mun Margrét sjá um hefðbundna útgáfu blaðsins auk þess að hafa umsjón með nýrri vefútgáfu tímaritsins. Margrét hefur störf í byrjun febrúar 2022 og áætlað er að vefur tímaritsins verði opnaður á aðalfundi félagsins í lok febrúar, ef allt gengur eftir. Við bjóðum Margréti velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins. Álfheiði Ingadóttur, fráfarandi ritstjóra, þökkum við kærlega fyrir áratugastarf við útgáfu blaðsins en hún mun starfa áfram við ýmis störf fyrir Náttúruminjasafnið.

Bókartilboð til félagsmanna

Bókin Sigurður Þórarinsson – Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur
er ævisaga eins helsta vísindamanns þjóðarinnar. Sigurður var landsþekktur
fyrir jarðfræðirannsóknir sínar og fyrir að miðla upplýsingum um
jarðfræðileg fyrirbæri til landsmanna á skýran og greinargóðan hátt.

Útgefandi er Náttúruminjasafn Íslands.

Bókin er veglegt tveggja binda verk í öskju. Sannkölluð heimilaprýði.

Félagsmönnum Hins íslenska náttúrufræðifélags býðst að kaupa verkið á
tilboðsverði, 13.900 kr. með heimsendingargjald innifalið. Venjulegt verð í vefverslun er 15.900 kr.

Félagsmenn sem eru á póstlista eru nú búnir að fá tilboðskóðann sendann í tölvupósti en ef það eru einhverjir sem eru á félagaskrá og vilja nýta sér tilboðið má hafa samband við ritari@hin.is – nýskráðir félagar geta að sjálfsögðu líka nýtt sér tilboðið! Smellið hér til að gerast félagi í HÍN.