Greinasafn fyrir flokkinn: Náttúrufræðingurinn

Ritstjóri Náttúrufræðingsins – laust starf til umsóknar

Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) og Náttúruminjasafn Íslands (NMSÍ), sem í sameiningu gefa út tímaritið Náttúrufræðinginn, auglýsa hér með starf ritstjóra laust til umsóknar. 

Náttúrufræðingurinn er fræðslurit um náttúrufræði þar sem áhersla er lögð á efni sem byggir á athugunum og rannsóknum á náttúru Íslands. Tímaritið hefur komið út samfleytt síðan 1931, eða í 90 ár. Fjögur hefti (tvö tvöföld) eru að jafnaði gefin út á ári og er hver árgangur um 160 blaðsíður. Hluti greinanna er ritrýndur en einnig er um að ræða ritstýrðar greinar, efni fyrir yngri sem eldri lesendur, þ.m.t. nemendur grunn- og framhaldsskóla, gagnrýni og ritfregnir svo dæmi séu tekin úr ritstjórnarstefnu ritsins.

Frá og með næsta ári mun tímaritið verða í opnum aðgangi auk prentaðrar útgáfu. Auk þessa verður annað efni eingöngu aðgengilegt á vef Náttúrufræðingsins, í anda ný samþykktrar ritstjórnarstefnu, og verður umsjón með vefnum einnig á herðum ritstjóra.

Hið íslenska náttúrufræðifélag (hin.is) eru frjáls félagasamtök, stofnuð 1889, sem m.a. vinna að því að efla áhuga almennings á náttúru Íslands, miðla náttúrurannsóknum og koma á framfæri fróðlegu efni um náttúrufræði og umhverfismál. Náttúruminjasafn Íslands (nmsi.is), sem var stofnað 2007, er eitt þriggja höfuðsafna landsins og heyrir til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Helstu verkefni

  • Umsjón með ritstjórn og útgáfu Náttúrufræðingsins. Það felur í sér að funda og vinna með ritstjórn tímaritsins, afla efnis fyrir ritið, tryggja fagleg gæði efnis og ritrýni, greinaprófarkalestur, umbrot, prentun og dreifingu.
  • Vefumsjón með efni Náttúrufræðingsins á nýrri vefsíðu (natturufraedingurinn.is) sem ætluð er öllum þeim sem áhuga hafa á náttúrufræðum, umhverfis- og náttúruvernd;  þ.m.t. ungum lesendum.
  • Umsjón með efni eingöngu ætlað fyrir vefútgáfu, afla efnis og tryggja fagleg gæði þess. 

Hæfniskröfur

  • Þekking og reynsla af ritstjórn og vefumsjón er nauðsynleg.
  • Ritfærni og góð kunnátta í íslensku og ensku er nauðsynleg.
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, helst meistaragráða, og góð þekking í náttúrufræðum er nauðsynleg.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í starfi.

Kaup og kjör

Um er að ræða 80% starf með möguleika á aukningu á starfshlutfalli. Starfsaðstaða og búnaður er á skrifstofu Náttúruminjasafnsins. Laun taka mið af stofnanasamningi Náttúruminjasafnsins og viðeigandi stéttarfélags. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. janúar nk., eða samkvæmt samkomulagi.

Umsókn

Umsóknarfrestur er til 15. desember nk.

Umsóknum skal fylgja greinargott kynningarbréf ásamt ferilskrá þar sem fram koma upplýsingar um menntun og fyrri störf umsækjanda auk upplýsinga um tvo meðmælendur.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. 

Sjá nánar á Starfatorgi stjórnarráðsins


HIN_logo_m_texta

Sumarstarf við náttúrumiðlun

Hið íslenska náttúrufræðifélag óskar eftir því að ráða nemanda til starfa í sumar. Félagið, í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands gefur út tímaritið Náttúrufræðinginn. Starfið felst í að taka þátt í efnisöflun, vinnslu og framsetningu efnis á glænýjum vef tímaritsins, í samvinnu við ritstjóra og umsjónarmann vefútgáfu Náttúruminjasafnsins. Áhugasömum er bent á að sækja um á vefsíðu Vinnumálastofnunar.

Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Út er komið þemahefti Náttúrufræðingsins um Þingvallavatn. Heftið er gefið út til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni, sem verður eitt hundrað ára gamall n.k. fimmtudag, 18. júní, en Pétur hóf viðamiklar vistfræðirannsóknir á vatninu með 59 vísindamönnum frá mörgum löndum 1974 og stóðu þær fram til ársins 1992, þegar aðrir, margir hverjir nemendur og samstarfsmenn Péturs tóku við keflinu.

Þingvallaheftið segir einmitt frá nýjustu rannsóknum á þessu stærsta náttúrulega stöðuvatni Íslands, Vatninu bjarta, eins og Hilmar J. Malmquist nefnir það í leiðara. Þar kennir ýmissa grasa enda eru rannsóknir á Þingvallavatni fjölbreyttar m.a. í atferlisfræði, efnafræði, þróunarfræði, þroskunarfræði, tegundagreiningu, hitaferlum og fæðu seiða. Þar er einnig sagt frá vísindarannsóknum Péturs M. Jónassonar, en sjálfur ritar hann grein í heftið:

Árni Hjartarson og Snorri Zophóníasson skrifa um Öxará; Snæbjörn Jónsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson um Líf í grunnvatni í hraunalindum Íslands; Finnur Ingimarsson, Haraldur Rafn Ingvason, Þóra Hrafnsdóttir, Stefán Már Stefánsson og Kristín Harðardóttir greina frá niðurstöðum í Vöktun svifdýra í Þingvallavatni 2007–2006; Gísli Már Gíslason, Hilmar J. Malmquist og Sigurður S. Snorrason segja frá Vatnavistfræðingnum og frumkvöðlinum Pétri M. Jónassyni; Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir segir frá Hreiðurgerð og hrygningaratferli hornsíla í Þingvallavatni; Gunnar Steinn Jónsson og Kesera Anamthawat-Jónsson skrifa um Notkun rafeindasmásjár við tegundagreiningu svifþörunga í Þingvallavatni; Eydís S. Eiríksdóttir og Sigurður Reynir Gíslason um Efnabúskap Þingvallavatns; Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason, Stefán Már Stefánsson  og Þóra Hrafnsdóttir um Hlýnun Þingvallavatns og hitaferla í vatninu; Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson segja frá Fæðu laxfiskaseiða í Sogi; Tryggvi Felixson segir frá baráttu Péturs M. Jónassonar og Landverndar gegn veginum yfir Lyngdalsheiði í greininni Þingvallavatn og baráttan um veginn; Skúli Skúlason og Sigurður S. Snorrason fjalla um Fjölbreytni og þróun bleikjunnar í Þingvallavatni og loks ritar Pétur M. Jónasson grein sem nefnist: Þingvallavatn og Mývatn – gróðurvinjar á flekaskilum.

Með þessu hefti hefur Náttúrufræðingurinn 90. árgang sinn en heftið hefur komið samfellt út frá 1930. Heftið er 140 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

f.h. ritstjórnar,
Álfheiður Ingadóttir

Sjá leiðara hér.
Sjá efnisyfirlit hér.

Með eldfjall í bakgarðinum – Jarðvegseyðing og byggðaþróun í nærsveitum Heklu

Næsta fræðsluerindi HÍN verður haldið mánudaginn 30. nóvember 2015 stofu 132 í Öskju, húsi náttúruvísinda við Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15.
Það er landfræðingurinn Friðþór Sófus Sigurmundsson sem flytur erindi sem hann nefnir Með eldfjall í bakgarðinum. Jarðvegseyðing og byggðaþróun í nærsveitum Heklu.

Halda áfram að lesa