Flóruvinir

Stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags hefur ákveðið að taka opnum örmum á móti starfsemi sem fram til þessa hefur fallið undir Flóruvini, samstarfshóp sjálfboðaliða um rannsóknir og verndun á íslensku flórunni. Hópurinn var stofnaður af Herði Kristinssyni árið 1998 og hafði það að markmiði „að stuðla að áhuga á íslensku flórunni meðal almennings, afla upplýsinga um plöntur til að bæta við þekkingu okkar á útbreiðslu þeirra í landinu, og aðstoða aðra flóruvini við greiningar á plöntum“. Þessi markmið eru í fullu samræmi við lög HÍN þar sem segir að tilgangur félagsins sé að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu, er snertir náttúrufræði. Í samræmi við lögin er því tilgangur deildar Flóruvina að glæða áhuga og auka þekkingu manna á flóru Íslands.

Starfið er vissulega í mótun en nokkrir fastir þættir eru þó til staðar. Við teljum rétt að lögð sé áhersla á að vinna neðangreind atriði í ár (2020), koma starfinu í fastar skorður og safna hugmyndum í sarpinn fyrir komandi ár. Hins vegar ef frjóir hugar koma að nefndinni og aldrei að vita hverju er hægt að hrinda í framkvæmd fyrr!


Forsvarsmenn Flóruvina

Í forsvari fyrir Flóruvini eru Hörður Kristinsson, Gróa Valgerður Ingimundardóttir, Starri Heiðmarsson og Snorri Sigurðsson. Félagsmenn sem eru áhugasamir um að taka þátt í starfinu, hvar sem er á landinu, eru hvattir til að hafa samband við nefndina. Einu skilyrðin er vilji til að nota fjarskipti svo búseta komi ekki að sök og áhugi á að vinna að markmiðum nefndarinnar auk þess að vera félagi í HÍN. Mikil þekking á flóru landsins er ekki krafa!

Dagur hinna villtu blóma

Dagur hinna villtu blóma er árlegur Norrænn viðburður þar sem boðið er upp á plöntuskoðunarferðir, oftast þriðja sunnudaginn í júní. Ýmsir aðilar, bæði einstaklingar og náttúrustofur svo dæmi séu tekin, hafa komið að skipulagi þessara gönguferða síðustu ár og er vonast til að nefndin geti í samstarfi við þá sinnt því hlutverki að hafa yfirsýn, sjá um samhæfingu og hjálpa til við kynningu.


Norrænt samstarf

Í nágrannalöndunum er öflugt starf fjölmargra grasafræðifélaga en þessi félög hafa stutt við bakið á okkur frændum sínum. Árlega er haldinn sameiginlegur fundur megin grasafræðifélaga hvers lands og hafa bæði Hörður og Gróa Valgerður sótt þessa fundi þegar kostur hefur gefist. Stefnt er á að halda uppteknu samstarfi, efla það og hafa það sem yfirlýst hlutverk nefndarinnar að sinna því.


Samfélagsmiðlar

Á Facebook hafa Flóruvinir sömuleiðis verið með líflegan hóp og nú nýverið síðu að auki. Hópurinn er opinn og er fyrst og fremst ætlaður þeim sem áhuga hafa á að deila myndum sínum af íslenskum plöntum, vantar aðstoð við tegundagreiningu eða vilja aðstoða aðra við greiningar.

Flóruvina síðan á Facebook var stofnuð með það í huga að auðvelda utanumhald um hópinn og viðburði tengda flóru landsins. Nefndarmenn hafa það að hlutverki að deila fróðleik um flóru Íslands í gegnum Facebook á fyrrgreindan máta, ritstýra umræðu í hópnum, halda utan um hópinn og eftir bestu getu sjá til þess að meðlimir fái réttar upplýsingar, ekki síst þegar kemur að tegundagreiningu. Facebook hópurinn er ekki vettvangur fyrir áróður af neinu tagi.


Ferlaufungur

Fréttabréf flóruvina kom út á árunum 1998 – 2012. Það bar hið viðeigandi nafn Ferlaufungur, í höfuðið á samnefndri plöntu (sjá mynd til vinstri). Fréttabréfið kom út eftir þörfum, einu sinni til tvisvar á ári nema 2001 og 2002. Hér má nálgast lista yfir pdf-skjöl áður útkominna Ferlaufunga.


Ábyrgðarmaður síðuhluta: Gróa Valgerður Ingimundardóttir
Síðast uppfært: 22. júní 2020