Greinasafn fyrir flokkinn: Fræðsla

Aðalfundur HÍN og fræðsluerindi 28. febrúar

Erindi Sigrúnar Helgadóttur um bók hennar Sigurður Þórarinsson, Mynd af manni I-II, verk Sigurðar og hvað hann gerði fyrir HÍN. Hann var formaður í aðeins 2 ár en hafði mikil áhrif. Erindið byrjar klukkan 19:00. Slóð á Teams streymi má nálgast hér.

Dagskrá aðalfundar byrjar kl. 20:00. Slóð á Teams streymi má nálgast hér.

Erindið og fundurinn fer fram á Náttúrufræðistofnun, Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ. Ekið er framhjá Kauptúni og eftir Urriðaholtsstræti, meðfram húsi Náttúrufræðistofnunar. Ekið er upp á efra stæði austan hússins og farið inn um hurð á vestari inngangi. Þar verða blöðrur til að sýna hvar farið er inn á fundinn.

Þeir sem koma gangandi geta farið sömu leið eða upp járnstiga sem er við starfsmannainngang þar sem ekið er inn í bílageymslu vestanmegin.

Ekið er framhjá Kauptúni og eftir Urriðaholtsstræti, meðfram húsi Náttúrufræðistofnunar. Ekið er upp á efra stæði austan hússins og farið inn um hurð á vestari inngangi. Þar verða blöðrur til að sýna hvar farið er inn á fundinn.

Fræðsluganga í Blikastaðakró

Sunnudaginn 29. september stendur Hið Íslenska Náttúrufræðifélag fyrir fræðslugöngu um Blikastaðakró. Blikastaðakró er nafn yfir um 2 km langa strandlengju frá ósi Úlfarsár vestur að Eiðinu út í Geldingarnes. Strandlínan er náttúruleg og lítið röskuð og skiptast á grunnar víkur með sandi og malarfjörum og klettanef sem ganga í sjó fram. Gorvík er dýpsta víkin í Blikastaðakró og þar er töluverð þangfjara. Dýralíf er auðugt, sérstaklega fuglalíf – einkum er mikið um æðarfugl, máfa og vaðfugla sem sækja á leirusvæði. Margæsir sjást þar í stórum hópum á fartíma. Algengt er að sjá seli liggja á skerjum. Ýmis fjörudýr er þar að finna og m.a. hefur risaskeri, stórvaxinn burstaormur, fundist í nokkrum mæli en hann grefur sig í sandinn á leirunum. Áhersla verður á fuglalíf á svæðinu og munu Snorri Sigurðsson, líffræðingur og Jón Baldur Hlíðberg, myndlistamaður leiða gönguna. Mæting er kl. 13.00 við ósa Úlfarsá. Gengið verður í átt að Geldingarnesi og endað við Gorvík. Bílastæði má finna neðst við Barðastaði. Frá Korpúlfsstaðarvegi er beygt niður Barðastaði (hjá  OB – bensín) og veginum fylgt beint niður að sjó. Bílastæðið má finna þar á vinstri hönd. Klæðið ykkur eftir veðri og takið með sjónauka. Gangan er ekki erfið. Miðað er við að hún taki um 2 klst. Ferðin er ókeypis.

Fræðsluganga í Hrútagjá

Mánudaginn 20. maí stendur Hið Íslenska Náttúrufræðifélag fyrir fræðslugöngu inn í Reykjanesfólkvang. Farið verður að Hrútagjá sem er nyrst í fólkvanginum, rétt sunnan við Fjallið eina. Þarna er stórkostlegt landslag og upplifunin er eins og að vera á hálendinu. Áherslan verður á jarðfræði staðarins og mun Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, leiða gönguna. Í för verða líka líffræðingar, m.a. Bryndís Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur. Við bjóðum upp á það að hittast kl. 18.30 á bílaplani Fjarðarkaups þar sem við getum sameinast í bíla og orðið samferða, en aðeins tekur um 15 mín að keyra að staðnum. Þeir sem rata að Hrútagjá og velja að fara sjálfir hitta okkur þar kl. 19. (Afleggjarinn að Vígdísarvöllum er tekinn og keyrt í ca 1 km að skilti sem á stendur Hrútagjá.). Klæðið ykkur eftir veðri og verið í góðum gönguskóm. Gangan er ekki erfið. Miðað er við að hún taki um 2 klst. Gott að hafa heitt á brúsa með sér. Ferðin er ókeypis.

Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautslandinu

Hafdís Hanna Ægisdóttir flytur næsta fræðsluerindi HÍN sem fer fram í fyrirlestrarsal Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Við vekjum athygli á því að brugðið er út af hefðbundinni tímasetningu og verður erindið miðvikudagskvöldið 8. maí kl.20. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Að loknu erindi verður boðið upp á spjall og hressingu fyrir utan fyrirlestrarsalinn.

Suðurskautslandið er framandi og heillandi heimur. Þessi kaldasta, vindasamasta og þurrasta heimsálfa jarðar hefur yfir sér ævintýrablæ landkönnuða og ofurhuga enda hefur ekkert fólk varanlega búsetu á Suðurskautslandinu og engar heimildir eða ummerki eru um að þar hafi verið byggð. Þrátt fyrir einangrun og fjarlægð frá iðnvæddum heimi, eru ummerki um loftslagsbreytingar þar greinileg. Í erindinu verður fjallað um nýlega ferð til Suðurskautslandsins á vegum alþjóðlegs leiðtogaprógrams fyrir vísindakonur. Fjallað verður um ferðalagið, lífríkið, áhrif loftlagsbreytinga á heimsálfuna og þann lærdóm sem dreginn var af ferðalaginu.

Hafdís Hanna Ægisdóttir lauk BS og MS námi í líffræði við Háskóla Íslands og doktorsnámi í plöntuvistfræði frá háskólanum í Basel í Sviss. Síðastliðinn áratug hefur hún starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum til að takast á við landeyðingu og endurheimta vistkerfi. Árið 2017 var Hafdís Hanna fyrsti Íslendingurinn til að fá inngöngu í alþjóðlegt leiðtogaprógram, Homeward Bound, sem hefur það að markmiði að þjálfa konur með vísindabakgrunn í leiðtogahæfni, stefnumótun og vísindamiðlun sér í lagi í tengslum við loftslagsmálin. Leiðtogaprógramminu lauk með mánaðarferðalagi 80 vísindakvenna til Suðurskautslandsins í byrjun árs 2019.